Tölvuvæðing bókasafna
Tölvuvæðing bókasafna hófst með tölvuvæðingu skráningar á níunda áratugnum með fleiri en einu kerfi. Snið til að skrá bækur, MARC record eða Machine-Readable Catalog record, var snemma skilgreint fyrir íslensk bókasöfn. Ríkið notaði Dobis/Libis, sem var rafrænt bókasafnskerfi sem Bókasafn Landspítalans og Borgarbókasafnið notuðu meðal annarra. Það keyrði á IBM-stórtölvum og rak SKÝRR kerfið en Borgarbókasafnið var fyrsti notandinn. Í Tölvumálum er notkun þessa kerfis hér á landi lýst:
Dobis/Libis nær yfir alla starfsþætti bókasafns. Það skiptist í eftirtalda þætti: leit, aðföng, tímaritahald, skráningu, útlán og sérstakan almenningsaðgang. Auk þess er í kerfinu tölvupóstur, þar sem starfsmenn geta sent hver öðrum skilaboð og lánþegar geta sent skilaboð til starfsmanna.
Dobis/Libis er sívinnslukerfi, þannig að allar aðgerðir, hvort sem um er að ræða skráningu, útlán, pantanir o.s.frv., skila sér strax inn í kerfið og eru þegar tiltækar til notkunar á öllum þeim stöðum, sem tengdir eru kerfinu.[1]
Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafnið hófu samstarf áður en þau sameinuðust. Snemma árs 1990 var keypt rafrænt bókasafnskerfi, breska kerfið Libertas, fyrir bæði söfnin. Það var frá SLS[2] og keyrði á Mini VAX og var formlega tekið í notkun í desember 1991 undir heitinu Gegnir.[3] Áður höfðu önnur erlend kerfi verið reynd en bókasöfn höfðu ekki öll verið samstíga. „Þegar nýi Gegnir kemst í notkun upp úr árinu 2001 þá sameinuðust nær öll bókasöfn um eitt kerfi. Ég veit ekki til þess að það hafi verið gert annars staðar í heiminum,“ segir Þorsteinn Hallgrímsson sem var lengi aðstoðarlandsbókavörður.[4]
Bylting fyrir notendur
Meðan Landsbókasafnið var enn í Safnahúsinu við Hverfisgötu var þar lengi að finna aðeins eina tölvu, úti í horni í spjaldskrárherberginu. Hún var aldrei notuð og gestir safnsins áttu þann eina kost að fletta upp í spjaldskrárskúffum safnsins sem geymdu ýmist handskráð spjöld eða vélrituð.
Andrea Jóhannsdóttir kerfisbókavörður vann að tölvuvæðingu bókasafnanna frá því fyrir sameiningu þeirra og fylgdi Gegni úr hlaði. Í grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins 26. mars 1992 segir:
Notendur bókasafnsins tóku strax við sér og sáu kosti þess að leita að bókum og tímaritum í tölvukerfinu og það má segja að tölvurnar í afgreiðslunni séu í stöðugri notkun og nú geta aðilar utan háskólanetsins einnig tengst því, segir Andrea Jóhannsdóttir kerfisbókavörður um nýja tölvukerfið Gegni, […]
Andrea segir kerfið tiltölulega nýtt og að það hafi upprunalega verið hannað fyrir háskólabókasöfn og hafi ýmsa kosti fram yfir önnur tölvukerfi. En hvernig er hægt að nota kerfið strax áður en Þjóðarbókhlaðan hefur verið tekin í notkun?
-Við getum unnið ýmsa undirbúningsvinnu og haft full not af kerfinu án þess að vera komin í Þjóðarbókhlöðuna. Fyrsta skrefið var að lesa inn í kerfið öll tiltæk gögn í tölvutæku formi og hefja skráningu. Núna eru í gagnasafninu bókfræðilegar upplýsingar um allan erlendan bókakost Háskólabókasafns og Landsbókasafns, allar íslenskar bækur frá og með árinu 1974, erlend tímarit í íslenskum bókasöfnun og bækur Kvennasögusafns Íslands en það á að verða sérstök deild innan Þjóðarbókhlöðunnar. Þetta eru alls um 240 þúsund færslur.[5]
Andrea benti á að kerfið væri ekki eingöngu gagnlegt fyrir gesti safnsins sem mæti á staðinn heldur mátti þá þegar nýta það í þágu þeirra sem lengra áttu að sækja:
Nú þurfa menn ekki að koma í afgreiðslu safnsins til að fletta spjaldskrám. Þeir sem hafa möguleika á tölvutengingu geta leitað að efni út frá höfundanöfnum, titlum, flokkstölum eða efnisorðum og þeir sem ekki hafa tölvutengingu geta komið í afgreiðsluna og leitað í tölvunum þar út frá sömu forsendum. Tölvutengingin býður upp á að fólk úti í bæ, úti á landi eða í öðrum löndum geti komist í samband við okkur og aflað sér upplýsinga.[6]
Á vegum Landsbókasafns – Háskólabókasafns hefur verið mótuð stefna um stafræna endurgerð og varðveislu stafrænna gagna.[7] Kringum árþúsundamótin voru gerðar breytingar á aðgengi almennings að gögnum, meðal annars á vegum safna og menningarstofnana. Á ráðstefnunni Menningararfurinn 1999 sagði Þorsteinn Hallgrímsson:
Eitt meginvandamál allra menningarstofnana, svo sem bókasafna, minjasafna, listasafna og skjalasafna, er annars vegar varðveisla þess efnis sem þær geyma og hins vegar að veita greiðan aðgang að efninu. Með nútíma tölvutækni opnast nýjar leiðir, sérstaklega til þess að auðvelda aðgengi að safnkostinum. Stofnanir víða um heim og einnig á Íslandi eru þegar farnar að huga að því hvernig best verði að þessu staðið. Sumar, eins og t.d. Landsbókasafn og Árnastofnun, eru þegar byrjaðar og aðrar komnar af stað […] áhugavert væri að ræða þessi mál og fá betra yfirlit yfir hvað menningarstofnanir í landinu eru að sýsla við á sviði rafrænnar tækni. Er þá bæði átt við yfirfærslu gagna í stafrænt form og skráningu þeirra, en hvort tveggja styður í flestum tilvikum langtímavarðveislu efnisins og auðveldar afnot af því.[8]
Kort
Fyrsta verkefni Landsbókasafnsins á sviði stafrænnar endurgerðar var að skanna gömul landakort af Íslandi og veita aðgang að þeim um vefinn. Í fyrsta áfanga var ákveðið að einbeita sér að því að skanna inn öll Íslandskort fram til ársins 1900. Síðan voru herforingjaráðskortin svokölluðu mynduð og sett á vefinn en það eru kort sem landmælingadeild danska hersins lét gera af hluta Íslands í byrjun síðustu aldar. Í framhaldi af þeim koma síðan kort Landmælingastofnunar Dana (Geodætisk Institut) af öllu landinu. Loks eru birt kort sem kortadeild Bandaríkjahers (AMS) gaf út á árunum 1948–1951.[9] Nú eru einnig öll gögn Landmælinga Íslands tiltæk á stafrænu formi.
Handrit og skjöl
Landsbókasafn Íslands – háskólabókasafn, Árnastofnun og Stofnun Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn hafa á umliðnum árum boðið upp á stafrænan aðgang að gríðarlegu magni handrita, sem ljósmynduð hafa verið á vegum þessara aðila.[10] Þorsteinn Hallgrímsson segir frá:
Fyrirrennari þessa verkefnis hét Sagnanet og þegar við fórum að afla styrkja til að setja handritin á vefinn árið 1997 var fljótlega ljóst að best var að skilgreina verkefnið þannig að allt efni sem féll undir hverja skilgreiningu fyrir sig væri tekið saman. Sá sem var í forsvari gagnvart okkur af hálfu Mellon-sjóðsins í Bandaríkjunum, sem veitti verkefninu 600 þúsund dollara styrk, kallaði þetta „collection of records“ og var mjög ánægður með að við skyldum fara þessa leið. Þetta þýddi það að við tókum allt sem hægt var að ná í, af hverju efni fyrir sig, hvort sem það voru Íslendingasögurnar, Sturlunga eða annað efni og birtum allt sem fáanlegt var í hverjum flokki fyrir sig.[11]
Tímarit
Rafrænn aðgangur að tímaritum á Íslandi hefur verið í uppbyggingu frá árinu 1999. Nú er svo komið að unnt er að skoða öll dagblöð og mjög mörg tímarit á netinu gegnum vefslóðina timarit.is. Fyrst var sjónum beint að elsta efninu, það er að segja öllu því efni sem hafði verið gefið út á tímarita- og dagblaðaformi fram til ársins 1920. „Því næst náðum við sem betur fer mjög góðri samvinnu við Árvakur hf. sem borgaði dágóðan hluta við að koma Morgunblaðinu á stafrænt form,“[12] segir Þorsteinn Hallgrímsson. Blaðið varð fljótlega allt tiltækt á vefnum.
Framan af var rafrænn aðgangur að tímaritunum fjármagnaður af utanaðkomandi aðilum að mestu leyti og ákveðin verkaskipting milli þeirra. Til dæmis stóð Reiknistofa bankanna straum af kostnaði við að koma tímariti Skýrslutæknifélagsins, Tölvumálum, á stafrænt form. Á þessu fyrirkomulagi varð breyting á árunum 2006–2008 þegar sú stefna var mörkuð af hálfu Landsbókasafnsins að setja allan íslenska tímaritakostinn á stafrænt form. Gerð var áætlun um hversu mikið magn væri um að ræða og unnið skipulega að því að ljúka verkefninu samkvæmt henni.[13]
Stafrænt bókasafn
Rúmlega 300.000 blaðsíður íslenskra bóka frá upphafi, svo og bóka sem tengjast Íslandi og Íslendingum, eru þegar komnar á stafrænt form og finnanlegar á vefnum baekur.is. Stafræn endurgerð allra bóka útgefinna fyrir 1844, sem telur allt að 150.000 blaðsíður, er í vinnslu. [14]
Um rafrænt lesefni, til dæmis rafbækur og og annað stafrænt efni, gildir að:
Útgefendur/höfundar að rafrænu efni eiga að senda inn rafrænar útgáfur í gegnum vefgátt safnsins. Með sendingu skulu fylgja upplýsingar um aðgengi að efninu og er mögulegt að haka við þau skjöl sem eiga að vera lokuð. […] Efni sem heimilt er að birta er birt á Rafhlöðunni.[15]
Landsaðgangur að fræðiritum
Mikilvægur landssamningur um aðgang að erlendum fræðiritum var gerður um árþúsundamótin. Á ýmsu gekk til að ná þessum samningi, en á endanum tókst það og réð þar mestu að gengið var út frá samvinnu bóksafna, og frjáls samtök voru mynduð um þennan aðgang. Til þess að gefa almenningi og fræðimönnum kost á að geta lesið þessi tímarit ókeypis á rafrænu formi varð að finna eitthvert kerfi til að greiða kostnaðinn og deila honum milli bókasafna og rannsóknarstofnana. Niðurstaðan var sú að bókasöfn voru flokkuð í mismunandi flokka – háskólabókasöfn, almenningsbókasöfn, sérfræðibókasöfn – og einnig komu ríkið og einkaaðilar að þessu máli. Upphaflega var það ósk þáverandi menntamálaráðherra, Björns Bjarnasonar, að einkaaðilar greiddu 25% kostnaðarins, en Þorsteinn Hallgrímsson aðstoðarlandsbókavörður taldi óraunhæft að þeir greiddu meira en eitt til tvö prósent og sú varð niðurstaðan. Þegar bankahrunið varð hækkaði þessi kostnaður allverulega, en með sameiginlegu átaki ríkisins og birgja, sem tóku á sig hluta af hækkunum, tókst að halda sjó. Misvel gekk að sannfæra forstöðumenn ýmissa stofnana um gildi þessara rafrænu áskrifta. Einn þeirra var lengi vel mjög ófús að taka þátt í þessu samstarfi og það var ekki fyrr en starfsmaður stofnunarinnar benti honum á að bera saman þá upphæð sem leggja skyldi til rafræna aðgangsins og það sem stofnunin greiddi þegar vegna áskrifta sérhæfðra tímarita að hann samþykkti tilhögunina.[16] Gildi þessa fyrirkomulags fyrir háskólasamfélagið og almenna fróðleiksleit var ótvírætt og því var hart barist fyrir því að halda því, ef mönnum þótti eiga að vega eitthvað að þessari auðlind, enda hefur áhlaupum á þessa áskrift fram til þessa verið afstýrt:
ÍSLENDINGAR eru eina þjóðin sem hefur landsaðgang að nokkrum af mikilvægustu gagnagrunnum heims á sviði vísinda. […] Landsaðgangurinn er mjög sérstæð auðlind. Rafrænt aðgengi að vísindatímaritum er að verða eitt af þeim verðmætum sem erlendir háskólar passa hvað best upp á. Þetta er t.d. greinilegt í Bandaríkjunum þar sem grannt er fylgst með því að gestir á bókasöfn skólanna hafi þar til gerðan aðgangspassa. […] Þannig er staðan líka á Norðurlöndum eða hjá þeim þjóðum sem við berum okkur oftast saman við. Það er hægt að fá bækurnar lánaðar eins og áður en aðeins starfsmenn skólanna og nemendur hafa rafrænan aðgang. Vísindaleg þekking er yfirleitt mjög sérhæfð og höfðar því til fámenns hóps manna. […] Það er einmitt þessi sértæka þekking, sem er grunnurinn að framsókn í atvinnulífi og þjóðlífi almennt. Gildi vísindalegrar vinnu verður yfirleitt ekki sýnilegt fyrr [en] eftir ótiltekinn tíma. Gagnagrunnar, eða landsaðgangur að stórum hluta vísindarita heimsins, kann að virðast ósýnilegur og notagildi þekkingarinnar er illmælanlegt í magni. Þetta er líklega skýringin á því hversu þessi þekkingarbylting hefur farið hljótt.[17]
Sarpur og skjöl
Í Sarpi (sarpur.is) eru varðveittar upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætti og örnefnalýsingar ásamt öðru efni frá fimmtíu söfnum víðs vegar um landið. Undanfarin ár hafa þau söfn og stofnanir sem eru aðilar að Sarpi skráð um eina milljón færslna í gagnasafnið sem varðveitt er á innri vef kerfisins. Meirihluti þeirra er nú aðgengilegur á ytri vefnum. Fyrsta útgáfa af Sarpi kom fram árið 1998.
Borgarskjalasafnið hefur, einkum á seinustu árum fyrir 2014, verið mjög virkt í að koma efni safnsins á framfæri á vefnum. Þjóðskjalasafn Íslands var ögn seinna á ferð að koma lykilupplýsingum safnsins á stafrænt form.
Hljóðbækur og hljóðupptökur
Upphafið að gerð hljóðbóka má rekja til ársins 1982:
Hljóðbókasafn Íslands var stofnað árið 1982, þá nefnt Blindrabókasafn Íslands, og er rekið á fjárlögum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. […]
Þjónusta við blinda, sjónskerta og aðra þá sem ekki geta nýtt sér hefðbundið prentletur efldist gífurlega við stofnun safnsins og sem dæmi um þróunina má nefna að árið 1977 voru útlán á hljóðbókum frá Borgarbókasafni um fimm hundruð á ári, en nú eru útlán í kringum eitt hundrað og sjötíu þúsund á ári. Leshamlaðir vita nú meira um rétt sinn til þjónustu á þessu sviði enda hefur lánþegafjöldi fjórfaldast á undanförnum árum.[18]
Fljótlega var farið að huga að því að nýta tölvutæknina í þágu blindra og sjónskertra og hafa þeir oft og tíðum verið framarlega í flokki í hagnýtingu tölvutækninnar enda hefur hún verið gríðarlega mikilvæg fyrir þennan notendahóp. Fleiri aðilar hófu að bjóða upp á hljóðbækur og þá fyrir almennan markað og fljótlega varð einnig nokkurt framboð af upptökum á útvarps- og sjónvarpsefni, bæði á vegum opinberra aðila, meðan útvarp og sjónvarp var enn í ríkiseigu, en ekki síður á vegum einkaaðila.
Tónlist – íslensk tónlist á netinu, löglega og ólöglega
Framboð á tónlist er gífurlegt á veraldarvefnum og gildir það jafnt um íslenska tónlist sem erlenda, nýja og eldri. Hér á landi hefur vefurinn tonlist.is verið starfandi frá árinu 2003 og má þar hlusta á og sækja sér tónlist gegn gjaldi. Upphaf vefsíðunnar er sú að Stefán Hjörleifsson tónlistarmaður í hljómsveitinni Ný dönsk stofnaði fyrirtækið MúsíkNet ehf. og vann að því í fimmtán mánuði að koma síðunni upp. „Verkefnið er viðamikið, því stefnt er að því að nánast öll íslensk tónlist verði þar geymd og gerð aðgengileg þeim sem fyrir hana vilja greiða,“ sagði í grein í Morgunblaðinu 10. apríl 2003, en þá var síðan ekki komin í loftið. Meðal þeirra sem komu að fjármögnun síðunnar var Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.[19] Þann 1. maí kom fram í frétt í sama blaði að Síminn og MúsíkNet hefðu undirritað með sér samstarfssamning deginum áður um rekstur vefsvæðisins tonlist.is.[20]
Margir smærri vefir bjóða upp á sérhæfðari tónlist, svo sem tónlistarútgáfur og áhugahópar um tónlist. Þá hafa margir tónlistarmenn kynnt tónlist sína á eigin vefsíðum jafnframt því að bjóða hana til kynningar eða kaups á öðrum tónlistarsíðum svo sem Spotify og SoundCloud.
Líkt og gerist með önnur höfundaverk þá snýst aðgengi að tónlist á vefnum meðal annars um greiðslur til höfunda og flytjenda. Sumir telja veraldarvefinn góða leið til kynningar en aðrir halda fram höfundarréttarsjónarmiðum. Ólöglegt niðurhal á tónlist, sjónvarpsefni og kvikmyndum hefur einnig skekkt heildarmyndina.
Elstu hljóðrit íslenskrar tónlistar eru vaxhólkar varðveittir hjá Þjóðminjasafni Íslands en varðveisla íslensks tónlistararfs er einkum á vegum þriggja safna, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Tónlistarsafns Íslands ásamt Ríkisútvarpinu. Landsbókasafn fær í skylduskilum (frá 1973) allt útgefið íslenskt tónefni og eru þar stafræn afrit af 78 snúninga hljómplötum, tónlistardiskum og vefútgáfu. Vefurinn ismus.is er samvinnuverkefni Árnastofnunar og Tónlistarsafns Íslands og geymir og birtir gögn er varða íslenska menningu: hljóðrit, ljósmyndir, kvikmyndir, handrit, texta, tónlist og íslenskt þjóðfræðiefni. Upphaflega snerist verkefnið eingöngu um að birta heimildir um íslenska tónmenningu en með tímanum hefur áherslan breyst og nú opnar Ísmús breiðan aðgang að tónlistar- og sagnamenningu og heimildum úr menningarsögu þjóðarinnar. Þannig skapast tækifæri til rannsókna og heimildaöflunar fyrir almenning, sérfræðinga, nemendur og kennara. Hjá RÚV er til gífurlegt magn tónlistar- og hljóðefnis og talsvert af því hefur verið yfirfært á stafrænt form. Ofangreind söfn geta veitt aðgang að sínu efni innan stofnunar en almennur aðgangur er oft mjög takmarkaður vegna höfundarréttar.
Aðgengi að alls konar tónlist hefur haft margvísleg áhrif á það hvernig fólk upplifir tónlist. „Jimi Hendrix, Salka Sól og Beethoven eru öll samtímamenn okkar í stafrænum tónlistarheimi,“ segir Árni Matthíasson blaðamaður sem mikið hefur fjallað um tónlist, tækni og menningu í Morgunblaðinu.[21]
Ljósmyndasöfn
Stafræn varðveisla ljósmynda hefur gerbreytt öllum möguleikum til að geyma gamlar og nýjar ljósmyndir og gera þær aðgengilegar. Þessi söfn eru bæði á vegum opinberra aðila og einkaaðila. Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafninu eru stærstu opinberu söfnin með milljónir mynda í söfnum sínum. Ljósmyndasafn Reykjavíkur hefur um 25.000 myndir á myndavef sínum, frá árunum 1870–2002, og Ljósmyndasafn Íslands býður upp á aðgang að hluta af safni sínu gegnum Sarp.[22]
Myndasafn Morgunblaðsins er bæði aðgengilegt af vef blaðsins mbl.is og einnig hafa myndir ljósmyndara Morgunblaðsins verið afhentar Ljósmyndasafni Íslands og Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Héraðsskjalasöfn og ýmis sveitarfélög um allt land hafa einnig safnað ljósmyndum og skannað þær inn um margra ára skeið og sum þessara safna eru aðgengileg á vefnum. Margar þessara mynda eru aðgengilegar gegnum Sarp, en aðrar með beinum aðgangi að vefsíðum.
Þá er að geta ljósmyndasafna einstakra ljósmyndara sem hafa verið gerð aðgengileg, yfirleitt gegnum stóru söfnin tvö, en einnig á vegum einkaaðila. Ragnar Th. Sigurðsson ljósmyndari var frumkvöðull í töku og varðveislu eigin mynda á stafrænu formi og hefur frá því á tíunda áratugnum (1994) geymt myndir stafrænt. Hann hóf að bjóða upp á stafrænan aðgang að myndasafni sínu, sem hefur einkum að geyma myndir frá norðurslóðum, árið 1997 og þá með 10.000 myndum sem hann hafði varðveitt á geisladiskum. „Það fór hægt af stað vegna þess að módemin voru svo skelfilega hæg“.[23]
[1] Elísabet Halldórsdóttir: Bókasafnskerfið Dobis/Libis. Tölvumál, 14. árg. 7. tbl. 1.10. 1989. Bls. 6.
[2] Gísli Már Gíslason, athugasemdir í tölvupósti apríl 2016.
[3] http://landsbokasafn.is/index.php/bokasafnid/um-safnid/saga . Sótt 9.10. 2015.
[4] Þorsteinn Hallgrímsson. Viðtal tekið 8.9. 2015. Hann var forstöðumaður tækniþróunar á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og aðstoðarlandsbókavörður á árunum 1994-2010 og með bakgrunn í upplýsingatækni.
[5] http://www.mbl.is/greinasafn/grein/84747/
[6] Sama heimild.
[7] http://landsbokasafn.is/uploads/stefnuskrar/stafraen_endurgerd_stefna_2011.pdf. Sótt 29.12.2015.
[8] Þorsteinn Hallgrímsson. Athugasemdir í tölvupósti við viðtal tekið 8.9. 2015 og: Þorsteinn Hallgrímsson í viðtali í nóvember 1999: Málþing um varðveislu og aðgengi gagna. Morgunblaðið, 13. nóvember 1999. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/503106/. Sótt 8.10. 2015.
[9] Slóðin á þennan vef er www.islandskort.is.
[10] Slóðin á þennan vef er www.handrit.is
[11] Þorsteinn Hallgrímsson. Viðtal tekið 8.9. 2015.
[12] Sama heimild.
[13] Sama heimild.
[14] http://landsbokasafn.is/uploads/stefnuskrar/stafraen_endurgerd_stefna_2011.pdf. Sótt 29.12.2015.
[15] http://landsbokasafn.is/index.php/markhopatenglar/utgefendur/skylduskil. Sótt 4.11. 2015.
[16] Þorsteinn Hallgrímsson. Viðtöl tekin 2.10. 2014 og 8.9. 2015.
[17] Örn D. Jónsson: Slys á upplýsingahraðbrautinni. Morgunblaðið, 7. nóvember 2005. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3682313. Sótt 9.10. 2015.
[18] Hljóðbókasafn Íslands: Saga og hlutverk. https://hbs.is/um_safnid/saga-og-hlutverk. Sótt 7.10.2015.
[19] Ný (og gömul) íslensk lög, ekki ný dönsk. Morgunblaðið B. 10.04.2003. Bls 12.
[20] Síminn og tonlist.is í samstarf. Morgunblaðið B. 01.05. 2003, bls. 2.
[21] Árni Matthíasson. Viðtal tekið 20.10.2015.
[22] http://www.thjodminjasafn.is/minjar-og-rannsoknir/ljosmyndasafn-islands/. Sótt 27.12.2015.
[23] Ragnar Th. Sigurðsson. Facebook-spjall, 29.12.2015.