Hagnýting tölvutækni fyrir fatlaða
„Sjálfsagt tekur tölvan tengd vélmenni að sér öll eldhúsverk og flest önnur húsverk. Þá er það einn af kostum tölvunnar, að hún gerir fötluðu fólki fært að vinna ýmis störf, sem það áður gat alls ekki unnið.“[1] Þannig var skrifað í greinaflokknum: Tölvan, rafeindakofinn og sveitasælan, í Lesbók Morgunblaðsins 1983.
Sú hugmynd, að nýta mætti tölvutækni í þágu fólks með fötlun, kom snemma fram, hér á landi sem annars staðar. Möguleikar tölvutækninnar vöktu ýmsar vonir og í upphafi voru það ekki síst blindir sem voru fljótir að tileinka sér tæknina í sína þágu.
Árið 1977 komu fyrstu tölvurnar með blindraletri á markaðinn. Þróunin hefur verið sú að farið er að smíða sérstaka skjái sem birta með blindraletri upplýsingar sem koma fram á hinum venjulega skjá tölvunnar. á þessir geta í flestum tilvikum nýst við almenn ritvinnslukerfi en þó getur verið nokkrum erfiðleikum bundið að skilgreina upplýstan texta, undirskrifanir o.s.frv. en menn hafa séð við þessu með því að taka í notkun hið svokallaða 8 punkta blindraletur. Í venjulegu blindraletri eru einungis 6 punktar og er raðað upp á misjafna vegu. Þannig er hægt að mynda 63 tákn. En með tilkomu tölvanna var nauðsynlegt að geta táknað mun fleiri tákn og því var tveimur punktum bætt við blindraletrið. Þannig að nú er unnt að tákna rúmlega 250 tákn.[2]
Hér á landi liðu ekki mörg ár þar til tölvutæknin var farin að þjóna blindum og sjónskertum, vissulega aðeins takmarkað, í takt við tæknimöguleika þessara tíma, en engu að síður voru þetta mikil framfaraskref frá því sem áður hafði verið. Tæknin er eins og annars staðar í samfélaginu ekki ýkja fullkomin í huga þeirra sem skoða þessar lýsingar með árið 2015 í huga, en fyrir þá sem áður höfðu ekki átt kost á slíkri hjálp var um gerbyltingu að ræða.
Fyrsta blindraleturstölvan kom til Blindrafélagsins árið 1982, en þá gaf dótturfyrirtæki Sambandsins í Bandaríkjunum blindrafélaginu slíka tölvu. Hún var snældudrifin. Innra minnið var 1 k og ef ég man rétt rúmaði snældan 200 k. Þetta var bylting. Með þessu tæki var hægt að skrifa blindraletur, leiðrétta það með góðu móti og fjölrita í gegnum tölvustýrðan blindraletursprentara. En það sem mestu máli skipti fyrir blindan mann, sem hingað til hafði orðið að nota ritvél og ekki getað leiðrétt sjálfur það sem hann skrifaði, var að nú var hægt að skrifa blindraletrið út í gegnum venjulega svartletursprentara. Þar með var sá múr brotinn og þróunin hélt áfram. Í stað sérstakra blindraleturstölva var farið að þróa sérstök jaðartæki svo að sjónskert fólk gæti hagnýtt sér venjulegar tölvur.[3]
Skelfingu lostin eða töfralausn?
Flestir litu á tölvutæknina sem framfaraskref fyrir fatlaða. En hins vegar var einnig hægt að upplifa tæknina sem ógn og röskun við þann veruleika sem menn þekktu og slíkar raddir heyrðust alltaf af og til eins og þessi klausa frá árinu 1987 ber með sér þar sem greinilega er verið að vísa í umræðu, sem var lifandi á þessum tíma, en jafnfram að gera grein fyrir því að kostir tölvuvæðingar væru margfalt meiri en ógnin, sem sumir töldu að af henni myndi stafa.
Á mörgum sviðum þjóðfélagsins hafa tölvur nú verið teknar í notkun og í hugum margra er þetta stutta orð, tölva, tengt töfralausn á vanda margra.
Þegar hin svokallaða tölvubylting hófst urðu ýmsir uggandi um sinn hag. Talið var að störfum færi fækkandi og tölvurnar leiddu til svo mikillar sjálfvirkni, á svo mörgum sviðum, að mörg störf yrðu óþörf. […]
Samtök fatlaðra fylgdust, fram af, skelfingu lostin með þeirri þróun sem varð á sviði tölvumála. Ýmsir sáu sæng fatlaðra uppreidda yrði ekki brugðist við og smíðaður sérstakur búnaður sem gerði hinum ýmsu hópum fatlaðra kleift að nýta sér hina nýju tækni. Reyndir varð sú að hugvitsmenn brugðust vel við og nú er sá búnaður fyrir þá hinn fjölbreyttasti.[4]
Sá búnaður, sem hér er verið að vísa til er margvíslegur, blindraletursprentarar, sem breyta ASCII-gildum í blindraletur og sjónrænir (optískir) lesarar sem voru ögn flókin tæki og náðu ekki mikilli útbreiðslu: “Tæki þetta breytir textanum í upphleypta stafi þannig að hinn blindi skynjar með vísifingri vinstri handar upphleypta mynd af tákni því sem myndavél tækisins hittir á hverju sinni. Kosturinn við þessa aðferð er sá að hægt er að skoða grafísk munstur á skjá en ókosturinn er hins vegar sá að notandinn er bundinn með báðar hendur meðan hann les þar sem hann heldur á sérstakri linsu í hægri hendi og les með vinstri hendi það sem birtist í tækinu."[5] Mun meiri vonir eru bundnar við “ […] sjónræna lesara sem lesa texta af prentuðum bókum inn á tölvur sem síðan er hægt að nota til þess að birta hann á því formi sem notandinn kýs. Hafa þegar verið gerðar tilraunir með slíka lesara á vegum Skýrsluvéla ríkisins og lofa þær góðu."[6]
Blindrabókasafnið tók að vonum þátt í þeirri byltingu sem varð á þessum árum. Hjá Blindrabókasafninu voru tölvur í notkun frá árinu 1983 og frá og með 1995 voru allar bækur sem gefnar voru út með blindraletri settar í tölvutækt form, yfirleitt beint frá prentsmiðju og forlögum. Árið 1986 voru tæplega 70% bóka sem gefnar voru út fengnar með þeim hætti. Blindrabókasafn Íslands var þar með komið í fremstu röð slíkra bókasafna á sínu sviði.[7]
Þegar blessuð tölvan kom
Í Morgunblaðinu í janúar 1993 er viðtal við Ásdísi Jennu Hreiðarsdóttur, 22 ára stúlku, sem þá var nýútskrifuð frá Menntaskólanum í Hamrahlið og á leið í lýðháskólanám í Danmörku. Viðtalið fjallar meðal annars um það hversu mikið tölvutæknin hefur hjálpað henni til að hafa sömu möguleika og jafnaldrar hennar til náms og starfa, en hún fékk fyrirburagulu við fæðingu, sem olli heilalömun, afleiðingin var sú að hún var bundin hjólastól vegna skorts á samhæfingu hreyfinga “er heyrnarskert og málhölt, en tjáir sig með aðstoð tölvu.“[8] Í útskriftarræðu við brautskráningu Ásdísar Jennu frá MH sagði hún meðal annars um árin í skólanum: “Þegar ég byrjaði var aðstaðan nánast engin, bara gömul vörulyfta og smáskonsa fyrir fatlaða. Fyrsta árið var erfitt því að ég hafði aðeins eina aðstoðarmanneskju sem ég varð að treysta alfarið á og enga hafði ég tölvu en þegar blessaða tölvan kom þá breyttist mikið.“[9] Það sem tölvan gerði henni kleift var að uppfylla fleiri drauma en hún hefði átt kost á annars. Tölvubúnaður þessa tíma, 1993, gerði henni meðal annars kleift að fara ein til útlanda í nám en halda samt góðu sambandi heim:
Hún er búin að fá samskiptabúnað í tölvu, sem hún tekur með sér til Danmerkur. Önnur samskonar tölva er svo heima hjá henni og þannig getur hún skrifast á við fjölskylduna í gegnum símamótald eða faxtæki.
Tölvutæknin og rafknúinn hjólastóllinn hefur gjörbreytt tilveru Ásdísar. Hún kemst allra sinna ferða þar sem er hjólastólafært og tölvan hjálpar henni að tjá sig. Tölvunni og hjólastólnum stjórna Ásdís Jenna með því að styðja á tvo hnappa með hökunni. Í augnhæð Ásdísar er lítill tölvuskjár og úr hátalara berast hljóðmerki þegar hún styður á valhnappinn. Flókið samspil skjátákna og hljóðmerkja gefur til kynna hvað valið er hverju sinni. Ásdís er mjög leikin í að stjórna þessum búnaðir, en fjölskylda hennar segist lítið botna í tækninni. Ásdís bindur miklar vonir við talgervil sem nú er að koma á markað. Þá getur hún ritað hugsanir sínar og tölvan ljær þeim mál.[10]
Talgervillinn sem sagði: Ástin mínúta
Tveimur árum síðar skrifar Gísli Helgason, forstöðumaður Hljóðbókagerðar Blindrafélags Íslands einmitt um slíka talgervla í tímaritið Tölvumál, en þá er ljóst að töluverður skriður er kominn á málin:
Fljótlega […] var farið að athuga hvort ekki væri hægt að búa til íslenskt gervital. Kjartan Helgason, sem var við nám í Háskólanum gerði tilraunir á þessu sviði og reyndi ýmsa talgervla. Hann vann grundvallarrannsóknir, um hvernig þróa ætti málfræðireglur og aðlaga ýmsar beygingamyndir málsins. Hlé varð á vinnunni um nokkurt skeið, en um 1985 komst loks skriður á málið, er Öryrkjabandalag Íslands tók málið upp og beitti sér fyrir því að ýmsir veittu styrki í verkefnið. Pétur R. Helgason, málfræðingur tók að sér frekari þróun talgervilsins og menn fóru að horfa á þann sænska. Reyndin var sú að á síðasta ári [1994] varð hann tilbúinn fyrir íslenskan markað.
Með talgervlinum opnast miklir möguleikar. […]
Talgervillinn les nokkuð þokkalega. Það þarf reyndar að venjast því að hlusta á hann. Þeir sem eru orðnir færir geta lesið allt að 250-300 orð á mínútur, en blindraleturslesarar fara mun hægar yfir. Því miður hafa slæðst nokkrar villur inn í framburð íslenska talgervilsins. Hann segir t.d. mínúta í staðinn fyrir mín. “Ástin mín" myndi hann lesa “Ástin mínúta". En þetta er verið að laga auk þess sem unnið er að frekari þróun framburðarins, svo sem ýmissa sérhljóða.
Þeir sem til þekkja, hafa haft orð á að íslenski talgervillinn sé með þeim betri, sem framleiddir eru í Evrópu.[11]
Blindir og sjónskertir höfðu lengi fylgst með þessari þróun og voru spenntir að sjá hvernig til tækist og Bandaríkjamenn urðu frumkvöðlar í þessum efnum en Svíar fylgdu fast á eftir.[12] Þegar þessi tækni var í burðarliðum var líka velt vöngum yfir margháttuðu notagildi hennar, ekki einungis fyrir blinda og sjónskerta og fólk með annars konar fötlun heldur einnig á öðrum sviðum. Þetta var skrifað um talgervla talsvert áður en þeir urðu að veruleika, eða árið 1987:
Talbúnaður eykur starfsgetu fjölda fólks. Þeir, sem af einhverjum ástæðum geta ekki lesið, geta nú nýtt sér upplýsingar frá tölvum og slíkur talbúnaður getur jafnframt komið að góðum notum í samgöngumiðstöðvum, strandstöðvum Landsímans og á fleiri sviðum. Því verður að gera ráð fyrir að sá hópur sem nýtti sér slíkan búnað yrði býsna fjölmennur.[13]
Ísbliss
Meðal margra tilrauna til að auka möguleika fatlaðra til tjáskipta var BLISS táknmálskerfið, sem og íslensk útgáfa þess sem nefnt var ÍSBLISS, sem Friðrik Skúlason, Jón H. Magnússon og fleiri þróuðu og náði útbreiðslu hér á landi og í fleiri löndum. Um tilurð ÍSBLISS segir Jón í grein í tímaritinu Tölvumál 1992:
Árið 1984 bað kennari í Öskjuhlíðarskólanum undirritaðan að athuga hvort hægt væri að tölvuvæða notkun BLISS táknmálsins og auðvelda þannig tjáskipti fatlaðra Blissnotenda. Fljótlega var lögð fram ákveðin grunnhugmynd að forriti, sem hefur haldist að mestu leyti óbreytt síðan, þó svo sjálf útfærslan á forritnu hafi verið þróuð áfram í nánu samstarfi við íslensku Blissnefndina, kennara við Öskuhlíðarskólann og Reiknistofnun Háskóla Íslands.[14]
Þessi þróunarvinna var forvitnileg bæði sem hugbúnaðarverkefni og einnig fyrir notendur, sem sumir hverjir áttu léttara með að nota táknin gegnum tölvur en með fyrri aðferðum, eins og fram kemur í grein Jóns.
Tímabundið bakslag með gluggaumhverfi og grafískum lausnum
En um leið og ein tækni náði þroska, snemma á tíunda ártugnum, þá urðu aðrar tæknibreytingar til að skapa ugg og erfiðleika hjá þeim sem höfðu hagnýtt sér tölvutækni með góðum árangri um margra ára skeið. 1995 skrifar Gísli Helgason í tímaritið Tölvumál:
Á undanförnum árum hefur þróunin í tölvuheiminum orðið sjónskertu fólki fremur óhagstæð. Þegar Windows væðingin hóf innreið sína, hættu jaðartækin blindraletursskjár og talgervill að virka. Þau lesa ekki úr grafískum táknum. Eina leiðin sem sjónskertir hafa nú er að nota stóra skjái og stækka letrið til muna. En þeir sem sjá alls ekkert sitja nú með sárt ennið. Að vísu er unnið að því að þróa vél- og hugbúnað, sem les grafísk tákn. Þeir sem lesa blindraletur, þurfa mjög öflugar tölvur, helst 486 með 16 mb. innra minni og 66 Mhz. Ekki er enn vitað hvað talgervill þarf mikið vinnslurými, en væntanlegt er á þessu ári eða í byrjun næsta árs forrit frá Infovox, sem getur lesið úr grafískum skjölum.
Þess má að lokum geta að á næstu árum mun talgervillinn stórauka tölvunotkun sjónskertra, sérstaklega ef tekið er tillit til þess að í auknum mæli er nú farið að gera út dagblöð og tímarit á stafrænu formi. Þá veita ýmis forrit, svo sem Kermit, sjónskertu fólki aðgang að gagnabönkum. Þá nýtist blindraletrið mun betur en talgervill.[15]
Blindratækni
Miklir möguleikar tölvutækninnar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda hafa boðið upp á ýmsar nýjar leiðir. Staðan árið 2013 var kynnt í tímaritinu Tölvumálum það ár og er hér stiklað á því stærsta sem ekki hefur þegar komið fram, einkum hvað varðar Ísland.
Þrátt fyrir að flestar þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru séu frekar einfaldar í framkvæmd var aðgengi framan af ekki innbyggt í stýrikerfin Það voru einhverjar tilraunir til þess en ekkert sem var nothæft fyrir blinda og sjónskerta. Það var ekki fyrr en Steve Jobs og félagar ákváðu að aðgengi fatlaðra væri ófrávíkjanlega krafa í öllum Apple vörum að þróunin fór á fullt. … Rafrænt aðgengi blindra og sjónskertra felst í þessu þrennu; stækkun, tali og punktaletri. … Komin er tölvuverð reynsla af notkun talgervla á Íslandi, það er tölvugerðum röddum sem með aðstoð sérstakra forrita geta lesið tölvutækan texta. Þróaðir hafa verið nokkrir talgervlar fyrir íslenska tungu; Sturla, Snorri, Ragga og nú síðast Karl og Dóra. … Talgervillinn í sjálfu sér er hinsvegar ekki nóg til þess að textinn sé lesinn upp, hann þarf stýriforrit sem finnur textann og ákveður hvernig hann er lesinn.[16]
Það sem einkum er forvitnilegt er að heyra að nú sé farið að huga að því að gera blindum og sjónskertum kleift að nota snjallsímaumhverfi í sama mæli og öðrum:
Mjög spennandi er að fylgjast með allri þróun varðandi snjallsíma og litla punktaleturskjái, sem gera notanda kleift að senda smáskilaboð og fara á netið í símanum án þess að hann sé síblaðrandi og er óháð tungumáli. …
Eins og áður sagði tóku aðgengismál blindra og sjónskertra stökkbreytingu eftir að félagarnir í Epli komu til. Ákvörðun þeirra um aðgengi sem innbyggðan hluta af öllum vörum frá Apple hefur haft ótrúleg áhrif á allan aðgengismarkaðinn og æ fleiri almennir framleiðendur sjá nú sóma sinn í því að bjóða upp á aðgengi sem sjálfsagðan hluta af stýrikerfum. Bæði nýja Android kerfið og Windows 8 eru kynnt með loforðum um gott aðgengi.[17]
Þótt hnökrar séu á framkvæmd málsins þegar þetta var skrifað, er ljóst að allt stefnir í rétta átt að blindir og sjónskertir sitji sem best við sama borð og aðrir notendur.
Össur og ævintýraleg tækni
Framfarir í nýtingu tölvutækni í þágu fólks með fötlun hafa orðið mjög miklar á umliðnum árum. Á Íslandi hefur stoðtækjaframleiðsla Össurar verið í fremstu röð í hagnýtingu tölvutækni til að stýra gerviútlimum og tileinkaði sér snemma og þróaði nýjungar á því sviði. Fyrirtækið er á stofni til frá árinu 1971 en í upphafi voru skiljanlega allt aðrar aðferðir notaðar til smíða á gerviútlimum en síðar varð. Í viðtali við Jón Sigurðsson forstjóra Össurar í Fréttablaðinu í mars 2005 skýrir hann leiðina að þeim framförum sem orðið hafa á vegum Össurar:
Jón segir að stefna Össurar sé að nýta þá tækni sem þróuð hefur verið við stoðtækjagerðina til að framleiða betri stuðningstæki og þannig sjái menn fyrir sér sterkari innkomu Össurar á stuðningstækjamarkaðinn. “Við ætlum að taka þetta tæknistig og flytja það yfir á stuðningstækjamarkaðinn.“[18]
Jón telur að ákveðin straumhvörf hafi orðið þegar gervihné frá Össuri, sem kom á markað árið 2004, var tilnefnt í hóp áhugaverðustu tækninýjunganna það ár, bæði hjá Time Magazine og Forbes.
“Ég held að fólk hafi ekki áttað sig almennilega á því á hversu háu tæknistigi við erum fyrr en þessar viðurkenningar voru veittar,“ segir Jón. …
Tæknin sem notuð er í gervihnéð byggist bæði á háþróuðum vélbúnaði og hugbúnaði. Hnénu er stjórnað af hugbúnaði sem lærir á hreyfingar notandans og aðlagast hreyfingunum.[19]
Framtíðaráformin sem hafa síðan þróast eru kynnt til sögunnar og ljóst að vegferðin sem framundan var byggðist á góðri þekkingu á því hvaða möguleikar framtíðin bar í skauti sér: “Næsta stig – og þá erum við að tala um mjög mörg ár fram í tímann – er að við séum með vörulínu þar sem stoðtækið er tengt beint við taugarnar og þá er hægt að láta útlimina hreyfa sig eftir hug manna.“[20]
Á vegum fyrirtækisins hafa verið nýttar aðferðir gervigreindar og lífverkfræði (Bionics) til að þróa stoðtæki, sem koma í stað þeirrar virkni sem tapast við útlimamissi.[21] Í grein frá árinu 2010 í Árbók VFÍ/TFÍ er greinargóð lýsing á því hvernig þessi tækni virkar og á hvern hátt háþróuð tölvutækni kemur við sögu.
Stoðtækjum Össurar á seinustu árum má skipta í mekanísk stoðtæki og hátækni stoðtæki, BIONICS. BIONIC-vörulínan samanstendur af örgjörvastýrðum stoðtækjum:
Örgjörvastýrð stoðtæki hafa þann kost að geta lært á göngulag notandans og lagað sig samtímis að breytilegu umhverfi, mismunandi gönguhraða og skreflengd. Lýsa má öllum BIONIC-kerfunum með þriggja fasa hringrás: Skynjun – Greining – Framkvæmd. Skynjarakerfi koma í stað aflnema líkamans og nema merki frá umhverfinu og notandanum sjálfum. Gervigreind og tölvustýring greina hráar upplýsingar frá skynjurum og taka ákvarðanir líkt og miðtaugakerfið. Hreyfing er því næst framkvæmd samkvæmt skipunum frá örgjörva og hringrásin heldur áfram.[22]
Stefnumótun stjórnvalda
Hlutverk stjórnvalda í að tryggja að aðgengi fatlaðra að opinberu efni, svo sem því sem miðlað er á vegum opinberra aðila, hefur verið mótað hvað varðar sjónskerta og blinda að minnsta kosti. Árið 2012 var eftirfarandi stefna samþykkt:
Aðgengisviðmiðin í nýju stefnunni fylgja staðli alþjóðlegu staðlasamtakanna W3C … sem hefur verið kynntur hagsmunaaðilum og farið í gegnum víðtækt umsagnarferli á vegum innanríkisráðuneytisins. […]
Í innleiðingu stefnunnar felast eftirfarandi meginþættir:
- Allt efni sem er sett fram í öðru formi en texta þarf einnig að vera aðgengilegt sem texti til að notendur geti nýtt sér aðra framsetningu, svo sem stærra letur, punktaletur (e. braille), talmál eða tákn.
- Margmiðlunarefni sem sett er fram á vefjum þarf einnig að vera hægt að miðla á annan hátt.
- Búa þarf þannig um efni að mismunandi tæki og tól geti lesið úr því sömu upplýsingar.
- Notendur þurfa að sjá eða heyra efni og geta aðskilið efni í forgrunni frá bakgrunni.
- Vefsíður þurfa að búa yfir fullri virkni hjá notendum sem nýta sér eingöngu lyklaborð við skoðun vefja.
- Veita þarf notendum nægan tíma til að lesa og nýta efni.
- Forðast skal að setja fram efni sem vitað er að geti valdið flogaköstum (t.d. blikkandi myndir).
- Útfæra þarf leiðir til að hjálpa notendum að finna efni og ákvarða hvar þeir eru staddir á vefsvæðum hverju sinni.
- Ganga þarf þannig frá texta að hann sé læsilegur og skiljanlegur.
- Vefsíður þurfa að virka með fyrirsjáanlegum hætti.
- Hjálpa þarf notendum að forðast og leiðrétta mistök.
- Ganga þarf úr skugga um að öll tækni vefsíðunnar fylgi stöðlum, tryggja þarf að framtíðartækni og hjálpartæki sem notendur nýta sér til að skoða vefi virki.[23]
Tveir fyrirvarar eru tilgreindir, annars vegar varðandi beinar útsendingar verði textaðar svo fljótt sem auðið er og eldri PDF-skrár á opinberum vefjum þurfi ekki að vera aðgengilegar skjálesurum þegar í stað.
Öryrkjabandalagið hefur haft með höndum vottun á því að vefir uppfylli þessi skilyrði og Sjá hf. sérhæft sig í að gera úttekt á aðgengi á vefsíðum og farið með framkvæmd aðgengisvottunar í samráði við Öryrkjabandalagið.[24]
Aðgengi fyrir alla, síðu á UT-vefnum (upplýsingatæknivefnum) sýnir að milli 10 og 15% allra vefnotenda í vestrænum samfélögum eigi við einhvers konar fötlun að stríða. Verulegur hluti þeirra þurfi líklega á sérstakri aðstoð eða hjálpartækjum að halda til að nýta vefinn sér að gagni. Eldri borgurum í Evrópu fjölgi stöðugt. Um 1990 voru 60 ára og eldri um 18% íbúa álfunnar en um 2013 er áætlað að hlutfallið verði komið upp í 30% af íbúafjölda og því sé mikilvægt að uppbygging vefja og framsetning þeirra sé skýr og einföld:
Gefa þarf gaum að þörfum þessara hópa […] Raunin er sú að flest af því sem talið er að auðveldi aðgengi fatlaðra að netinu nýtist ekki síður öðrum notendum. Er þá til dæmis átt við óörugga tölvunotendur, útlendinga sem eru búsettir á Íslandi og hafa ekki fullt vald á íslensku, einstaklinga með þroskafrávik og fleiri.
Við gerð vefja þarf að gæta þess að unnt sé að skoða þá þótt mismunandi tækni sé beitt. Til dæmis á ekki að skipta máli hvort notandi beitir mús, lyklaborði, rödd, fingri eða öðru þegar flakkað er um vefinn.[25]
[1] Almenningstölvan. 3. hluti. Tölvan, rafeindakofinn og sveitasælan. Lesbók Morgunblaðsins, 1983, 24. tbl. 58. árg, bls. 2.
[2] Arnþór Helgason: Tölvur í þágu sjónskertra. Tölvumál, 4. tbl. 12. árg. 01.04. 1987, bls. 14-15.
[3] Gísli Helgason: Nokkrar hugleiðingar um aðgang sjónskertra að upplýsingum. Tölvumál, 20. árgangur, 1. tbl. 01.02. 1995, bls. 17-18.
[4] Arnþór Helgason: Tölvur í þágu sjónskertra. Tölvumál, 4. tbl. 12. árg.. 01.04. 1987, bls. 13.
[5] Arnþór Helgason: Tölvur í þágu sjónskertra. Tölvumál, 4. tbl. 12. árg.. 01.04. 1987, bls. 15.
[6] Arnþór Helgason: Tölvur í þágu sjónskertra. Tölvumál, 4. tbl. 12. árg.. 01.04. 1987, bls. 16.
[7] Arnþór Helgason: Tölvur í þágu sjónskertra. Tölvumál, 4. tbl. 12. árg.. 01.04. 1987, bls. 13-16.
[8] Ég gefst ekki upp. Viðtal við Ásdísi Jennu Ástráðsdóttur. Morgunblaðið, 10. janúar, 1993, bls. 20. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=125286&pageId=1778210&lang=is&q=%C1sd%EDs%20Jenna. Sótt 10.11. 2015.
[9] Ég gefst ekki upp. Viðtal við Ásdísi Jennu Ástráðsdóttur. Morgunblaðið, 10. janúar, 1993, bls. 20. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=125286&pageId=1778210&lang=is&q=%C1sd%EDs%20Jenna. Sótt 10.11. 2015.
[10] Ég gefst ekki upp. Viðtal við Ásdísi Jennu Ástráðsdóttur. Morgunblaðið, 10. janúar, 1993, bls. 21. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=125286&pageId=1778210&lang=is&q=%C1sd%EDs%20Jenna. Sótt 10.11. 2015.
[11] Gísli Helgason: Nokkrar hugleiðingar um aðgang sjónskertra að upplýsingum. Tölvumál, 20. árgangur, 1. tbl. 01.02. 1995, bls. 17-18.
[12] Gísli Helgason: Nokkrar hugleiðingar um aðgang sjónskertra að upplýsingum. Tölvumál, 20. árgangur, 1. tbl. 01.02. 1995, bls. 17-18.
[13] Arnþór Helgason: Tölvur í þágu sjónskertra. Tölvumál, 4. tbl. 12. árg.. 01.04. 1987, bls. 14.
[14] http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=182390&pageId=2362198&lang=is&q=%CDSBLISS. Sótt 29.12.2016.
[15] Gísli Helgason: Nokkrar hugleiðingar um aðgang sjónskertra að upplýsingum. Tölvumál, 20. árgangur, 1. tbl. 01.02. 1995, bls. 17-18.
[16] Rósa María Hjörvar: Blindratækni. Tölvumál, 1. tbl. 38. árg., október 2013, bls. 10. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/Tolvumal_2013.pdf. Sótt 15.11.2015.
[17] Rósa María Hjörvar: Blindratækni. Tölvumál, 1. tbl. 38. árg., október 2013, bls. 10-11. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/Tolvumal_2013.pdf . Sótt 15.11.2015.
[18] Háþróuð tækni og háleit markmið. Fréttablaðið, 20. mars 2005, bls. 12. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=265573&pageId=3759553&lang=is&q=Össur. Sótt 12.11.2015.
[19] Háþróuð tækni og háleit markmið. Fréttablaðið, 20. mars 2005, bls. 12. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=265573&pageId=3759553&lang=is&q=Össur. Sótt 12.11.2015.
[20] Háþróuð tækni og háleit markmið. Fréttablaðið, 20. mars 2005, bls. 12. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=265573&pageId=3759553&lang=is&q=Össur. Sótt 12.11.2015.
[21] Upplýsingar af vef fyrirtækisins: http://ossur.is/gervifaetur/bionic-vorulinan. Sótt 11.11.2015.
[22] Hildur Einarsdóttir: Össur. Nýsköpun og þróun í stoðtækjaiðnaði. Árbók VFÍ/TFÍ. 22. árg. 1. tbl. (01.06.2010), bls. 160. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=356969&pageId=5704169&lang=is&q=stoðtæki. Sótt 11.11. 2015.
[23] http://www.ut.is/frettir/nr/7375
[24] http://www.obi.is/thinn-rettur/adgengi/
[25] Aðgengi fyrir alla. http://www.ut.is/adgengi/. Sótt 13.11.2015.