Skip to main content

Að tala og rita um tæknina á íslensku

Kafla þennan skrifaði Sigrún Helgadóttir.

Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands stofnuð

Fljótlega eftir að tölvuöld gekk í garð á Íslandi var byrjað að finna íslensk heiti fyrir ýmis hugtök í tölvutækni. Skömmu eftir að Skýrslutæknifélagið var stofnað, árið 1968, var stofnuð orðanefnd á vegum félagsins og hófst hún handa um að safna orðum um tölvur og gagnavinnslu og þýða erlend orð. Í nefndinni voru í upphafi Bjarni P. Jónasson, Einar Pálsson, Gunnar Ragnars og Oddur Benediktsson. Þessi nefnd sendi fljótlega frá sér stutta, óformlega orðaskrá með um 140 hugtökum. Orðaskráin var skrifuð á ritvél og fjölrituð eða ljósrituð. Frá byrjun árs 1971 voru í nefndinni Bjarni P. Jónasson, Jóhann Gunnarsson, Jón Skúlason og Þórir Sigurðsson. Árið 1974 gáfu þeir út aðra útgáfu af upphaflega listanum sem hafði að geyma um 700 orð eða hugtök. Listinn var gefinn út sem tölvuprentað handrit, undir yfirskriftinni Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu. Frumrit orðaskrárinnar var á árituðum gataspjöldum. Efnið var skráð á gataspjöld, ein lína í listanum á hvert spjald, og spjöldin síðan árituð í sérstakri vél. Orðalistinn var síðan prentaður á línuprentara á marglaga pappír sem var þannig að þegar prentað var urðu til samrit eins og kalkipappír væri notaður (NCR, No Carbon Required). Með þessari tækni mátti aðeins prenta upphafsstafi og af broddstöfum var aðeins Á fyrir hendi. Nefndin notaði sem fyrirmynd Data Processing Glossary frá IBM en þeirra verk byggðist aftur á efni frá American National Standards Institute (ANSI). Í orðalistanum eru ensku skilgreiningarnar prentaðar ásamt ensku heitunum og íslenskum þýðingum.

Orðanefndin frá 1978

Baldur Jónsson, kom inn í nefndina 1976 og árið 1978 var nefndin endurskipuð. Baldur Jónsson og Jón A. Skúlason voru áfram í nefndinni en nýir nefndarmenn voru Sigrún Helgadóttir, sem var skipuð formaður, Grétar Snær Hjartarson og Örn Kaldalóns. Jón A. Skúlason og Grétar Snær drógu sig út úr starfinu vegna anna og Þorsteinn Sæmundsson kom inn í nefndina í staðinn. Þeir nefndarmenn sem störfuðu óslitið í nefndinni frá 1978 eru:

  • Baldur Jónsson málfræðingur
  • Sigrún Helgadóttir tölfræðingur
  • Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur
  • Örn S. Kaldalóns kerfisfræðingur

Þau ákváðu að kalla afrakstur vinnu sinnar Tölvuorðasafn og höfðu veg og vanda af 5 útgáfum orðasafnsins. Um aldamótin 2000 var farið að kalla nefndina Tölvuorðanefnd sem styttingu á Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands.

Orðanefndarfundir

Eftir að Sigrún varð formaður nefndarinnar var stefnt að því að halda nefndarfundi vikulega. Óttar Kjartansson, sem var fyrsti starfsmaður félagsins, boðaði til fyrsta fundarins sem var haldinn í fundarherbergi Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands þar sem Sigrún starfaði á þeim tíma. Nokkrir fundir voru haldnir þar en fljótlega þótti heppilegra að halda fundina þar sem aðgangur var að orðabókum og bauð Baldur Jónsson nefndinni að halda fundi í skrifstofu sinni í Árnagarði. Í júlí 1983 flutti Baldur með starfsemi sína í húsnæði Háskólans að Aragötu 9 og hélt nefndin eftir það fundi sína í Aragötunni til ársins 1999 þegar starfsemin var flutt að Neshaga 16. Íslensk málstöð var stofnuð 1985. Hún var jafnframt skrifstofa Íslenskrar málnefndar og hafði aðsetur í Aragötu 9. Orðanefndin hafði fundaraðstöðu á Neshaga 16 í skjóli málnefndarinnar til hausts 2002 en flutti þá í húsnæði Nýherja að Borgartúni 37 í boði Arnar Kaldalóns. Eftir að Örn varð framkvæmdastjóri Icepro-nefndarinnar árið 2005 hefur nefndin haldið fundi í húsnæði Icepro-nefndarinnar, fyrst í Húsi verslunarinnar og síðast Í Húsi atvinnulífsins að Borgartúni 35.

ordanefnd aragata 1986
Orðanefnd fundar á skrifstofu Baldurs Jónssonar í Aragötu 9 1986. Örn, Sigrún, Baldur, Þorsteinn. Nefndin hélt fundi í skrifstofu Baldurs á meðan hann hafði aðsetur í Aragötunni. Baldur var forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar sem var skrifstofa Íslenskrar málnefndar.

Um útgáfurnar

Öllum fimm útgáfum Tölvuorðasafns fylgir ítarlegur formáli eða inngangur, stundum hvort tveggja. Þar er gerð grein fyrir vinnulagi við hverja útgáfu og styrkveitenda getið. Allar þessar upplýsingar má nú finna á vefsetri orðanefndarinnar http://tos.sky.is/. Hér á eftir verður fjallað um vinnulag orðanefndarinnar frá 1978, um hvernig íðorðin urðu til, um skilgreiningar og fjallað verður um einstakar útgáfur og getið þeirra atriða sem gætu vakið athygli lesenda.

Vinnulag orðanefndarinnar

Verkefnið sem stjórn félagsins fól endurskipaðri orðanefnd var mjög óljóst. Þó virtist það í aðalatriðum vera fólgið í því að gera Íslendingum kleift að tala og skrifa um tölvutækni og gagnavinnslu á íslensku og hafði nefndin það að leiðarljósi allan sinn starfstíma. En nefndarmenn vissu í fyrstu ekki hvernig ætti ná því markmiði.

Fljótlega var hafist handa við að athuga hvað hafði verið gert annars staðar. Flest heiti í upplýsinga- og tölvutækni eru upprunnin í hinum enskumælandi heimi. Þess vegna hljóta fleiri þjóðir en Íslendingar að hafa staðið frammi fyrir því vandamáli að þurfa að tala og skrifa um tölvutækni á sinni eigin þjóðtungu. Danir, Norðmenn og Svíar höfðu t.d. þegar gefið út tölvuorðasöfn. Þeir höfðu byggt þau á alþjóðlegum staðli, skrá um gagnavinnsluorð, Dataprocessing – Vocabulary (ISO 2382), frá Alþjóðlegu stöðlunarstofnuninni, ISO (International Organization for Standardization). Á vegum ISO höfðu alþjóðlegar nefndir tekið fyrir orðaforða í tölvutækninni, flokkað hann og skilgreint. Hver grunneining í stöðlunum var hugtak og því fylgdu heiti, eitt eða fleiri á ensku og frönsku, ásamt skilgreiningum á ensku og frönsku. Ákveðið var að nota þessa staðla til viðmiðunar í starfi Orðanefndar Skýrslutæknifélagsins frá 1978.

Um íðorðin

Í grein sem Sigrún Helgadóttir ritaði í tímaritið Orð og tunga árið 1990 fjallaði hún nokkuð um íðorðastefnu orðanefndarinnar. Hér á eftir er stuðst við þá grein.

Á erlendum málum eru fræðiorð, þ.e orð sem eru hluti af ákveðnu efnissviði, hafa afmarkaða og sértæka merkingu og eru hluti af hugtakakerfi innan efnissviðsins, gjarnan nefnd term. Á íslensku eru slík orð nefnd íðorð. Guðmundur Finnbogason bjó orðið til á sínum tíma. Orðið íð merkir 'starf', sbr. handíð(ir) og íðorð eru orð eða orðasambönd sem notuð eru í sérfræðilegri umræðu. Orðið íðorð var líklega fyrst notað 1928 þegar Orðanefnd Verkfræðingafélagsins gaf út sérfræðiorð sín og kallaði Íðorðasafn. Að öðru leyti mun það hafa verið lítið sem ekkert notað fram til 1980 þar sem það þótti vera framandlegt. Fremur var talað um nýyrði en íðorð. Þeir sem unnu í orðanefndum að útgáfu sérhæfðra orða voru að miklu leyti að mynda ný orð og koma þeim á framfæri. Því lá nærri að orðið nýyrði væri farið að merkja það sama og term en nú þykir heppilegra að tala um íðorð.

Þegar gera á yfirlit yfir íðorðaforða tiltekinnar greinar er fyrsta stigið að afmarka það svið sem taka skal fyrir. Segja má að Orðanefnd Skýrslutæknifélagins hafi talið öll hugtök, er lúta að tölvutækni og gagnavinnslu, vera á sínu verksviði. Annað stig er að athuga hvort til sé einhver grunnur, innlendur eða erlendur, til þess að byggja á. Þessi grunnur getur verið í formi staðla, orðabóka, kennslubóka og þess háttar rita. Sá grunnur, sem á þurfti að halda, reyndist vera fyrrnefndur staðall.

Jafnan fer mestur tími í að safna saman hugtökum, flokka þau og afmarka merkingarsvið þeirra. Síðan þarf að finna hvað þau heita eða gefa þeim heiti og semja skilgreiningar eða skýringar. Sumar greinar eru þess eðlis að hugtakakerfi þeirra eru alþjóðleg. Þá er ótvíræður kostur að alþjóðlegur félagsskapur komi reiðu á hugtakakerfið. Hlutverk íðorðafræðinga í einstökum löndum yrði þá að finna heiti á sínu tungumáli fyrir hugtökin og aðlaga skilgreiningar og skýringar því máli. Í erindi sem Magnús Snædal flutti á ráðstefnu Íslenska málfræðifélagsins 8. nóvember 1986 (Orðmyndun í læknisfræði) leggur hann áherslu á þá skoðun danska málfræðingsins Hjelmslevs að unnt sé að orða hverja hugsun á ólíkum tungumálum. Magnús segir enn fremur: „Málið hlýtur að búa yfir þeim hæfileika að orða ný hugtök hvort sem þau eru orðin til í málsamfélaginu eða aðflutt. Og íðorðafræðin reynir ekki einungis að samræma og staðla fræðilegan orðaforða hvers einstaks tungumáls heldur einnig að skapa samræmi milli ólíkra tungumála.“ Auk aðalmarkmiðs orðanefndarinnar, að gera Íslendingum kleift að tala og skrifa um tölvutækni á íslensku, áleit nefndin að í því fælist einnig að gera þyrfti tilraun til þess að staðla orðaforðann.

Tölvutæknin er þess háttar fræðigrein að hugtakakerfi hennar er alþjóðlegt. Vert er að leggja áherslu á að þótt hugtakakerfi séu alþjóðleg er aldrei unnt að þýða íðorð og skilgreiningar beint heldur er reynt að orða sömu hugsun á ólíkum málum.

Haustið 1978 hóf orðanefndin störf við að finna íslensk íðorð á hugtökum í þeim köflum af alþjóðlega staðlinum sem þegar höfðu verið gefnir út. Í hverjum kafla var tekið fyrir tiltekið svið og afmarkaði sú kaflaskipting störf nefndarinnar á hverjum tíma. Nefndin réðist því ekki á orðaforðann eftir stafrófsröð ensku íðorðanna heldur eftir efni kafla staðalsins. Um þetta leyti var íslenskur orðaforði í tölvutækni mjög fátæklegur. Þó voru til einstaka mjög góð orð. Sjálft orðið tölva hafði verið notað um nokkurn tíma og orð sem allir tölvunotendur þekkja eins og forrit, færsla, skrá, seguldiskur, hugbúnaður, vélbúnaður og prentari höfðu fengið viðurkenningu og voru almennt notuð.

Á fyrstu þremur til fjórum árunum sem nefndin starfaði var komið upp stofni af íðorðum og mótuð sú stefna sem nefndin fylgdi síðan. Íðorðastefna orðanefndar Skýrslutæknifélagsins er mjög einföld og felst í tveimur reglum:

  1. Nota íslenska stofna ef þess er nokkur kostur.
  2. Nota þá þýðingaraðferð sem best hentar hverju sinni.

Nefndarmenn álitu í fyrsta lagi að meginþorri Íslendinga vildi ekki gefast upp og tala ensku þegar rætt væri um tölvur því að þá væri stutt í að tunga forfeðra okkar tapaðist alveg. Í öðru lagi er vert að gera sér grein fyrir því að ekki er verið að tala um að búa til nýtt mál. Oft heyrist sú gagnrýni að íslenskur texti um tilteknar fræðigreinar, t.d. tölvutækni, stærðfræði og eðlisfræði, sé óskiljanlegur venjulegu fólki. Þá gleymist að samsvarandi enskur texti er jafnóskiljanlegur „venjulegu“ enskumælandi fólki einfaldlega vegna þess að það þekkir ekki fræðin sem fjallað er um.

Í tveimur greinum (Íslensk orðmyndun í Andvara 1987 og Isländsk ordbildning på inhemsk grund í Språk í Norden 1985) telur Baldur Jónsson upp fjórar aðferðir sem beitt er við að auka orðaforða málsins:

  1. Innlend lán
  2. Nýmyndanir
  3. Erlend lán með aðlögun
  4. Erlend lán án aðlögunar

Baldur hefur bent á að þótt hann hafi brugðið út af venju og notað orðið lán í þessu sambandi sé sú orðanotkun óheppileg því að hér sé ekki verið að tala um eitthvað sem er fyrst fengið og síðan greitt eða afhent veitanda aftur.

Orðanefndin hafði ekki lista yfir þessar aðferðir liggjandi á borðinu. Nefndin reyndi einungis að finna það íðorð sem best hentaði hverju sinni. En að sjálfsögðu má finna dæmi um mismunandi aðferðir í Tölvuorðasafninu að undanskilinni þeirri síðustu. Lítum á hvernig fyrstu þremur aðferðunum hefur verið beitt á tölvuorðaforðann.

Innlend lán fela í sér að orðum sem til eru í málinu er fengin ný merking. Þetta er kallað „terminologisering“ í nágrannamálum okkar og er mjög algeng aðferð. Baldur skiptir slíkum lántökum í tvennt, þ.e. í fyrsta lagi eru tekin orð úr almennu máli og í öðru lagi er reynt að vekja upp gleymd orð og gefa þeim nýtt hlutverk og þar með nýtt líf. Um hið fyrra eru mörg dæmi í Tölvuorðasafninu. Oft hafa ensku heitin orðið til á þennan hátt og íslensku heitin eru bein þýðing á þeim. Dæmi um þetta eru t.d. memory sem á íslensku heitir minni og printer sem á íslensku heitir prentari. Stundum er enska heitið „innlent lán“ í ensku, og ekki unnt að nota beina þýðingu á íslensku. Gott dæmi um þetta er enska heitið editor. Af einhverjum ástæðum hafa tölvunotendur ekki getað sætt sig við að kalla þetta þarfa verkfæri einfaldlega ritstjóra. Það orð sem einna helst reyndist nothæft í þessari merkingu er orðið ritill. Enska orðið key er dæmi um orð sem hefur fleiri en eina merkingu í tölvutækni. Auk þess eru fleiri ensk heiti, t.d. index, sem menn vilja gjarnan geta þýtt með orðinu lykill. Þess vegna lagði orðanefndin til að einn af þessum lyklum, þ.e. sá á lyklaborði eða hnappaborði gæti heitið hnappur.

Í Tölvuorðasafninu er ekki mikið um gleymd eða hálfgleymd orð sem gefið hefur verið nýtt hlutverk. Helsta dæmið er að sjálfsögðu orðið skjár. Við upphaf sjónvarpsaldar á Íslandi lagði Bergur Jónsson til að orðið skjár skyldi tekið upp sem heiti á 'myndfleti myndlampa' sem á ensku heitir screen. En merking orðsins skjár breyttist þegar til sögunnar komu útstöðvar þar sem myndlampar voru notaðir til birtingar tölvugagna. Orðið skjár varð þá heiti á öllum kassanum sem myndlampinn var í og jafnvel á allri útstöðinni. Orðanefndin gerði það því að tillögu sinni í annarri útgáfu Tölvuorðasafnsins að myndlampi í kassa ásamt ótilgreindum stýribúnaði yrði kallaður skjáald (heitir á ensku visual display unit eða monitor) og útstöð með myndlampa (visual display terminal) fengi heitið skjástöð. Orðið skjástöð var töluvert notað og hefur lifað í orðasafninu en skjáald sést ekki oft og menn halda áfram að kalla kassann skjá. Orðið skjáald birtist aðeins í annarri útgáfu orðasafnsins.

Önnur aðferð við myndun íðorða er nýmyndanir sem Baldur skiptir í þrennt, þ.e. afleiðslu, samsetningar og myndun nýstofna. Í Tölvuorðasafninu er sægur afleiddra og samsettra orða en mér vitanlega ekkert dæmi um að nýr stofn hafi verið myndaður. Afleidd orð geta verið margvísleg. Sem dæmi má nefna orðið gjörvi fyrir processor, myndað sem gerandnafn af sögninni að gera, og ritill fyrir editor, myndað af sögninni að rita. Lýsingarorð má mynda af nafnorðum, t.d. biðminnugur fyrir buffered, myndað af biðminni sem er þýðing á buffer, en biðminni er dæmi um samsett orð. Orðið biðminnugur kom fram í annarri útgáfu orðasafnsins en þegar þriðja útgáfa var undirbúin taldi nefndin að orðið biðvistaður væri nákvæmari þýðing. Einnig er til örvóttur fyrir directed, myndað af ör.

Orðanefndin hefur gert nokkuð að því að taka upp lítt notuð viðskeyti eins og –ildi og –ald (sbr. skjáald hér að framan). Frægasta dæmið í þeim flokki er sennilega mótald fyrir modem. Enska orðið modem er stytting á modulator/demodulator, þ.e. tæki sem mótar og afmótar merki. Ef búa ætti til íslenskt íðorð sem segði alla þá sögu yrði það nokkuð langt. Þess vegna kom fram sú hugmynd að bæta endingunni –ald aftan við stofninn í sögninni að móta svo úr yrði mótald. Önnur leið væri að taka upp enska orðið nánast óbreytt (sbr. 4. leið hér á undan) svo að úr yrði orðið módem. Margir nota það og finna ekkert athugavert við það. Hins vegar finnur hver Íslendingar að orðið er útlent. Í þessu sambandi er e.t.v. vert að benda á að orðanefnd rafmagnsverkfræðinga greip til viðskeytisins –ald á undan Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins og myndaði m.a. orðið hitald fyrir heat element og ferjald fyrir transducer. Orðanefndin hefur í fáein skipti notað viðskeytið –ald til að mynda heiti á tækjum. Nú (í janúar 2016) eru fimm dæmi í safninu: mótald, pakkald (packet assembler/disassembler, PAD), ferjald, netald (hub) og varald (hardware security module, HSM) auk skjáalds sem áður er getið. Í Tölvuorðasafninu eru þrjú dæmi um íðorð þar sem viðskeytið –ildi var notað: tengildi (adapter, adaptor, interface unit), smygildi (cookie) og stýrildi (hand control).

Samsetningar í Tölvuorðasafninu eru óteljandi og af ýmsum gerðum. Samsetning í íslensku er mjög virk orðmyndunaraðferð. Vert er að benda á að fleiryrt ensk íðorð fá oft einyrta íslenska samsvörun. Af handahófi er valið sem dæmi enska íðorðið back-end computer sem hefur fengið íslensku þýðinguna baktölva.

Að síðustu má nefna þann flokk sem kalla mætti erlend lán með aðlögun. Nefndin reyndi alltaf fyrst að nota innlent efni ef þess var nokkur kostur en í einstaka tilviki gekk það ekki. Enska orðið code er bæði sögn og nafnorð. Nafnorðið er heiti á 'reglu sem varpar stökum eins mengis á stök annars mengis' og sögnin þýðir 'að umskrá gögn með því að nota þessa reglu'. Nefndinni tókst ekki að finna neinn íslenskan stofn sem væri nothæfur í þessari merkingu og öllum þeim samsetningum sem á þurfti að halda. Þrautalendingin varð því sú að reyna að sníða enska stofninn til. Úr því varð sögnin að kóta og karlkynsnafnorðið kóti. Síðan mátti nota þennan stofn í öllum samsetningum þar sem orðið code kom fyrir. Annað dæmi um tökuorð er hvorugkynsorðið bæti sem er myndað sem hljóðlíking við enska orði byte sem er stytting á orðasambandinu by eight. Einnig mætti benda á karlkynsorðið biti sem er notað sem þýðing á bit og er heiti á tölustaf í tvíundakerfinu. Bit er stytting á binary integer en hér er um orðaleik að ræða þar sem bit í ensku er 'eitthvað lítið'. Í íslensku er biti einnig eitthvað lítið, en enska orðið bit og íslenska orðið biti eru áreiðanlega af sama stofni. Enska og íslenska eru germönsk mál og mörg orð í þessum tveimur tungumálum eru af sama stofni. Þess vegna er ekki óeðlilegt að ensku og íslensku íðorðin séu keimlík þótt ekki sé um beina lántöku að ræða.

Gerðar eru margar og ólíkar kröfur til íðorða svo að þau geti talist frambærileg. Þessar kröfur eru oft gagnstæðar og erfitt að fullnægja þeim öllum. Síðan verður að taka til greina að smekkur manna er ólíkur; það sem einum finnst vont finnst öðrum gott. Ógerlegt er að átta sig á því hvaða orð muni hljóta náð hjá þeim sem eiga að nota þau. Sú krafa til íðorða, sem er einna háværust, er sú að þau eigi að vera gegnsæ. En þau eiga einnig að vera stutt og auðlærð. Þegar orðanefndin vann að fyrstu útgáfu Tölvuorðasafnsins var orðið processor þýtt með orðinu gjörvi.Þessu orði var tyllt á blað á seinustu stundu líkt og þegar farangri er kastað í bát sem er að fara frá landi. En orðanefndarmönnum til undrunar var bókin varla komin út þegar orðið var komið í notkun. Annað dæmi um þýðingu sem var betur tekið en orðanefndarmenn reiknuðu með er sögnin þysja sem þýðing á ensku sögninni zoom. Þessi þýðing kom fyrst fram í annarri útgáfu orðasafnsins. Þegar unnið var að þriðju útgáfunni voru menn ekki vissir um að þessi þýðing hefði hitt í mark og gerðu tilraun með sögnina að renna sem þýðingu á zoom. En síðan kom í ljós að sögnin þysja var komin í notkun þannig að frá og með fjórðu útgáfu orðasafnsins er sögnin þysja aðalþýðing fyrir zoom og renna samheiti.

Skilgreiningar

Þegar unnið var að fyrstu útgáfu Tölvuorðasafnsins var ákveðið að nefndin skyldi einbeita sér að heitum hugtaka, þ.e. íðorðunum sjálfum en láta skilgreiningar bíða seinni tíma. Það er að vísu rétt að nauðsynlegt er að koma sér upp orðalagi um ýmislegt sem segja þarf en byggingarefnið í orðalagið eru orðin. Ef orðin vantar getur ekkert orðalag orðið til.

Þegar unnið var við aðra útgáfu orðasafnsins var hins vegar ákveðið að hafa skilgreiningar, skýringar og dæmi sem hluta af upplýsingum um hugtökin. Skilgreiningar eru fyrst og fremst nauðsynlegar til þess að afmarka merkingarsvið hugtaka í bókinni svo að öllum megi vera ljóst hvaða hugtaki er verið að gefa heiti. Ensk orð eins og íslensk eru oft margræð. Orðalisti án skýringa getur verið villandi þar sem lesandinn veit ekki nákvæmlega hvaða hugtaki er verið að gefa heiti þótt hann sjái íðorðin sjálf. Í riti eins og Tölvuorðasafni eru skilgreiningar einnig nauðsynlegar til þess að geta prófað þau íðorð sem verið er að búa til. Einnig er nauðsynlegt að gera tillögur um orðalag á ýmsu því sem segja þarf.

Skilgreiningar á hugtökum í Tölvuorðasafninu eru þýðingar á skilgreiningum úr alþjóðlega staðlinum fyrir þau hugtök sem eru tekin úr staðlinum. Í staðlinum er hugtökum raðað í hugtakakerfi og skilgreiningarnar endurspegla stöðu hugtaksins í kerfinu. Heiti hugtaka eru því notuð til þess að skilgreina önnur hugtök. Í staðlinum er eitt enskt heiti valið sem aðalorð og samheitum raðað í virðingarröð. Orðanefndin beitti sömu aðferð við íslensku íðorðin þegar nauðsynlegt var talið að fleiri en eitt heiti fylgdi tilteknu hugtaki. Nánast undantekningalaust eru aðalorðin notuð í skilgreiningum og skýringum í orðasafninu. Íðorð sem koma fyrir annars staðar í safninu eru skáletruð í skilgreiningum og skýringum. Í leitarkerfi Tölvuorðasafnsins á vefnum má smella á orðin og fá viðkomandi efnisgrein á skjáinn. Frávik eða fjölbreytni í stíl gengur ekki því lesandinn á heimtingu á því að vita nákvæmlega hvað við er átt. Þess vegna má t.d. ekki nota ýmist hnappaborð eða lyklaborð og ýmist fylki eða víðlæg stærð í skilgreiningum. Aðferðir sem var beitt við að þýða skilgreiningar úr staðlinum voru yfirfærðar á skilgreiningar á hugtökum sem fengin voru úr öðrum heimildum.

Fyrsta útgáfa Tölvuorðasafns

ORG SH 19980209
Sigrún Helgadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands á Bessastöðum 9. febrúar 1998. Orðanefndin, Íslensk málnefnd og stjórn Skýrslutæknifélagsins voru boðin til forsetans og Sigrún afhenti Ólafi eintak af orðasafninu.

Fyrstu árin eftir að Sigrún tók við formennsku í orðanefndinni fór nefndin yfir nokkra kafla alþjóðlega staðalsins og fann íslensk heiti fyrir hugtök sem þar voru. Nefndarmenn litu á það sem hlutverk sitt að finna íslensk heiti í staðinn fyrir ensk heiti sem notuð voru um ýmislegt sem laut að tölvutækni. Og það var frumskilyrði að heitin væru gerð úr íslenskum efnivið. Þegar komið var fram á árið 1982 þótti nefndarmönnum hæfilegt að gefa út það sem þá hafði safnast. Vorið 1982 var Íslenskri málnefnd veittur styrkur úr Rannsóknarsjóði IBM vegna Reiknistofnunar Háskólans til að undirbúa tölvuvinnslu orðasafna. Tilskilið var, að orðasafn Skýrslutæknifélags Íslands yrði látið sitja fyrir, enda hafði stjórn félagsins sótt um styrk til þess verkefnis. Á vegum málnefndarinnar hafði þá um nokkurt skeið verið unnið að gerð orðabókarkerfis með tölvuvinnslu sérhæfðra orðasafna í huga. Tölvuorðasafnið var fyrsta orðasafnið sem var unnið með þessu nýja lagi. Það var tölvuskráð af Sigurði Jónssyni, starfsmanni Baldurs, og Magnús Gíslason hjá Reiknistofnun Háskólans sá um alla forritun. Magnús kom síðan tölvuskrám með umbrotnu orðasafninu beint í setningarvél prentsmiðjunnar Odda á disklingi þannig að eina hlutverk prentsmiðjunnar var að prenta orðasafnið. Þetta var nýjung á þessum tíma. Orðasafnið kom síðan út haustið 1983. Útgefandi var Hið íslenska bókmenntafélag í samvinnu við Íslenska málnefnd og var Tölvuorðasafnið fyrsta ritið í ritröð málnefndarinnar. Baldur Jónsson og Sigrún Helgadóttur önnuðust ritstjórn. Í orðasafninu eru rösklega 700 hugtök með tæplega 1000 íslenskum heitum og rösklega 1000 enskum heitum. Í stöðlunum eru ensku heitin flokkuð sem aðalheiti og samheiti. Sama var gert með íslensku heitin, valið var sérstakt aðalheiti og samheitum raðað í virðingarröð. Engar skilgreiningar fylgdu hugtökunum. Uppsetning orðasafnsins var skilgreind þannig að í fyrri hluta bókarinnar er skrá með íslenskum heitum ásamt samsvarandi enskum heitum, en vísað er til aðalheita frá samheitum. Í seinni hlutanum er skrá með enskum heitum og samsvarandi íslenskum heitum og eins og í íslenska hlutanum er vísað frá samheitum til aðalheita. Þessari grunnhugmynd hefur verið haldið í öllum fimm útgáfum þó að skilgreiningar, skýringar og dæmi hafi síðar bæst við þannig að vinna við fyrstu útgáfu safnsins varð grunnur að því sem á eftir kom.

Safnað var styrkjum frá fyrirtækjum og stofnunum til þess að greiða útgáfukostnað og er listi yfir styrkveitendur fremst í orðasafninu og á vef nefndarinnar eins og áður er getið.

Örfilmuækni

Að frumkvæði Einars Erlendssonar, ljósmyndara, vann orðanefndin að því árið 1984 að finna heiti yfir hugtök í örfilmutækni. Afrakstur af þeirri vinnu var gefinn út í 2. tölublaði, 10. árgangs tímarits Skýrslutæknifélagsins, Tölvumála, í janúar 1985. Þar var gerð tilraun með að láta skilgreiningar fylgja hugtökum. Örfilmutækni er nú að mestu úrelt en það er gaman að eiga þennan orðalista. Nokkur hugtök úr heftinu rötuðu síðan inn í 2. útgáfu Tölvuorðasafnsins og eru enn þá í safninu (t.d. örfilma og örfilmuprentari).

Önnur útgáfa Tölvuorðasafns

Vorið 1984 hófst nefndin handa við að undirbúa aðra útgáfu Tölvuorðasafnsins. Fundir voru haldnir reglulega, einu sinni til tvisvar í viku fram á sumarið 1986. Ákveðið var að skilgreiningar skyldu fylgja hugtökum. Eins og þegar er getið eru skilgreiningar fyrst og fremst nauðsynlegar til þess að afmarka merkingarsvið hugtakanna í orðasafninu. Lesendur velkjast þá ekki í vafa um hvaða hugtaki er verið að gefa heiti. Skilgreiningar eru einnig nauðsynlegar í orðasöfnum til þess að geta prófað þau íðorð sem birtast í safninu og til þess að gera tillögur um orðalag á ýmsu því sem segja þarf. Nákvæmar skilgreiningar auðvelda einnig orðasmiðum að finna heppileg heiti fyrir hugtök.

Fyrst var farið yfir kafla ISO-staðalsins og tekin fyrir flest hugtök sem þar voru. Síðan var farið yfir fjölmargar erlendar tölvuorðabækur og fyllt í eyðurnar. Einnig var stuðst við fyrirspurnir sem orðanefndinni höfðu borist. Fjölmargir sérfræðingar í ýmsum greinum sátu fundi nefndarinnar og lásu yfir handrit að orðasafninu. Í orðasafninu eru nær 2600 hugtök, íslensk heiti þeirra um 3100 og ensk heiti um 3400.

Það hafði alltaf verið ætlun nefndarmanna að gefa út stærra rit og hafa þá skilgreiningar með. En nefndarmönnum var ljóst að til þess að geta gert það þyrfti einhver að geta unnið við verkið samfellt í nokkurn tíma.

Í upphafi árs 1985 réð stjórn Skýrslutæknifélagsins Sigrúnu Helgadóttur ritstjóra verksins til tveggja ára og henni til aðstoðar Kristínu Bjarnadóttur. Þær fengu vinnuaðstöðu í Íslenskri málstöð. Kristín sá um alla tölvuskráningu en hún og Sigrún settu saman skilgreiningar sem nefndarmenn síðan lásu yfir. Sú mikla vinna sem var lögð í að semja skilgreiningar fyrir aðra útgáfu orðasafnsins liggur til grundvallar allri vinnu við skilgreiningar í síðari útgáfum. Fyrstu tilraunirnar við skilgreiningasmíðina voru ekki mjög burðugar. Í mörgum tilvikum þurfti að búa til nýtt orðalag. Þarna var verið að fjalla um tækni sem ekki hafði verið skrifað mikið um á íslensku fyrr. Skilgreiningar í Tölvuorðasafninu eru yfirleitt þýðingar á skilgreiningum úr staðlinum eða úr öðrum heimildum á ensku. Sigrún segir í grein sem hún ritaði í Tölvumál eftir útkomu þriðju útgáfu Tölvuorðasafnsins (1. tbl., 23. árg., 1998) að hún hafi fyrst skrifað uppkast að þýðingu og síðan hafi Kristín spurt hvað þetta þýddi eiginlega. Eftir útskýringu í venjulegu máli var stundum auðveldara að orða þá hugsun skýrar.

Eins og áður var efnisflokkunar- og skráningarkerfi málnefndarinnar notað við tölvuskráningu orðasafnsins. Umbrot orðasafnsins var það sama og í fyrstu útgáfunni nema skilgreiningum, skýringum og dæmum var bætt við íslenska hlutann. Eins og í fyrstu útgáfunni fylgir hverju ensku heiti í ensku skránni aðeins ein íslensk þýðing sem ber að taka sem tilvísun til íslensk-enska hlutans. Íslenski hlutinn var aðalhluti orðasafnsins og þar er að finna alla þá vitneskju sem bókin veitti um hvert hugtak.

Magnús Gíslason sá um umbrot og alla tölvuvinnslu og handritið var flutt í prentsmiðju Odda á disklingi tilbúið til prentunar.

Íslensk málnefnd gaf orðasafnið út sem þriðja ritið í ritröð málnefndarinnar.

Á vegum stjórnar Skýrslutæknifélagsins var safnað fé frá fyrirtækjum og stofnunum til þess að greiða kostnað af ritstjórn verksins undir forystu Lilju Ólafsdóttur.

Þriðja útgáfa Tölvuorðasafns

Orðanefndin hélt áfram vinnu sinni við orðasöfnun fljótlega eftir að önnur útgáfa orðasafnsins kom út og voru fjölmargir sérfræðingar gestir nefndarinnar. Snemma á tíunda áratugnum þótti tímabært að huga að nýrri útgáfu Tölvuorðasafnsins. Stjórn Skýrslutæknifélags Íslands skipaði verkefnisstjórn sem hafði umsjón með verkinu og forgöngu um að safna fé til þess að greiða kostnað við ritstjórn. Í verkefnisstjórn sátu Douglas A. Brotchie, Heimir Sigurðsson og Sigrún Helgadóttir. Árið 1993 veitti Ráðgjafanefnd um upplýsinga- og tölvumál (RUT) Skýrslutæknifélaginu styrk úr sjóði til að tryggja stöðu íslenskunnar í alþjóðlegum samskiptum á sviði upplýsingatækni og boðmiðlunar. Styrkinn skyldi nota til þess að vinna að endurskoðun Tölvuorðasafns. Málræktarsjóður og Lýðveldissjóður styrktu verkið árin 1995, 1996 og 1997. Styrkir frá þessum þremur aðilum skiptu sköpum fyrir verkefnið. Eins og áður er listi yfir þessa og aðra styrkveitendur í orðasafninu og á heimasíðu orðanefndarinnar.

Haustið 1995 var Stefán Briem eðlisfræðingur ráðinn ritstjóri verksins. Hann vann að efnisöflun, þýddi skilgreiningar, undirbjó og sat fundi nefndarinnar. Stefán sá einnig um tölvuskráningu og alla tölvuvinnu, m.a. umbrot bókarinnar. Stefán hafði óslökkvandi áhuga á vélrænum þýðingum og hafði þróað forrit fyrir sjálfvirkar þýðingar milli íslensku og ensku (sjá http://tungutorg.is/). Hann tók fljótlega til við að beita vélrænum þýðingum á skilgreiningar í staðlinum. Að sjálfsögðu þurfti að umskrifa texta sem var þýddur á þennan hátt en þýðingar á helstu íðorðum í skilgreiningum lágu fyrir og þessi vinnubrögð spöruðu tíma.

ordanefnd.sky.athuga.m.fleiri
Orðanefnd þann 4. feb. 1998 á Grand Hóteli í útgáfuhófi vegna 3. útgáfu Tölvuorðasafnsins. Frá vinstri: Örn Kaldalóns, Baldur Jónsson, Þorsteinnn Sæmundsson, Stefán Briem, Sigrún Helgadóttir (heldur á heiðursfélagakjali).

Við gerð 3. útgáfu var eins og áður lögð til grundvallar skrá frá Alþjóðlegu staðlasamtökunum og Alþjóða raftækniráðinu sem þá hafði fengið heitið Information Technology - Vocabulary ISO/IEC 2382. Þessi skrá var í 37 köflum og í sífelldri endurskoðun. Sumir kaflanna höfðu verið gefnir út sem staðall. Flest hugtök í skránni voru tekin með í 3. útgáfuna, en auk þeirra fjölmörg hugtök úr tölvuorðabókum og öðrum ritum um tölvumálefni og upplýsingatækni. En á þessum tíma hafði lýðnetið (Internetið) komið til sögunnar og um leið gjörbreytt aðstaða til efnisöflunar. Einkum var stuðst við efni úr FOLDOC (Free On-Line Dictionary Of Computing, http://foldoc.org/) sem frjáls aðgangur var að (og er enn þá) á veraldarvefnum. Við val á hugtökum var enn fremur stuðst við ábendingar frá sérfræðingum og fyrirspurnir sem orðanefndinni bárust. Fjölmargir sérfræðingar aðstoðuðu orðanefndina og ritstjórann við undirbúning útgáfunnar. Sumir lögðu til orðalista og annað efni og margir lásu yfir einstaka efniskafla.

Þeirri meginreglu var fylgt við endurskoðun Tölvuorðasafnsins fyrir þriðju, fjórðu og fimmtu útgáfu að halda í sem flest eldri hugtök af sögulegum ástæðum. Þess vegna eru t.d. enn í safninu hugtök sem lúta að notkun gataspjalda og segulbanda þó að þau séu ekki lengur notuð.

Í þriðju útgáfu orðasafnsins voru rösklega 5000 hugtök með um 5800 íslenskum heitum og tæplega 6500 enskum. Uppsetning orðasafnsins er í aðalatriðum sú sama og notuð var fyrir aðra útgáfu af safninu.

Orðanefndin og ritstjóri höfðu eins og áður vinnuaðstöðu í Íslenskri málstöð og Íslensk málnefnd gaf orðasafnið út.

Orðasafnið kom út í upphafi árs 1998. Í tilefni af útkomu bókarinnar bauð Skýrslutæknifélagið til móttöku 4. febrúar 1998 þar sem formaður orðanefndarinnar afhenti Birni Bjarnasyni, menntamálaráðherra, eintak af bókinni. Hinn 9. febrúar var orðanefndinni ásamt fulltrúum Íslenskrar málnefndar og Skýrslutæknifélagsins boðið til Bessastaða þar sem forseta Íslands, herra Ólafi Ragnari Grímssyni, var afhent eintak af Tölvuorðasafninu.

Hinn 15. nóvember 1997 var opnaður á veraldarvef lýðnetsins orðabanki Íslenskrar málstöðvar. Skýrslutæknifélagið hafði þá gert samstarfssamning við Íslenska málstöð um að 3. útgáfa Tölvuorðasafns yrði í orðabankanum. Handritið, sem lá fyrir á þeim tíma, var sett í orðabankann. Þegar bókin kom svo út í byrjun árs 1998 var efnið endurnýjað.

Íslensk táknaheiti

Síðla árs 1988 eða í byrjun 1989 kom Jörgen Pind, sem þá var forstöðumaður Orðabókar Háskólans, að máli við formann orðanefndar Skýrslutæknifélagsins og óskaði eftir samvinnu við að finna íslensk heiti fyrir margs konar tákn sem voru á lista sem hann hafði undir höndum. Listi þessi mun vera upprunninn í Viðauka D í staðlinum ISO 8879 – 1986 (E), Information processing – Text and office systems – Standard Generalized Markup Language (SGML). Þar eru gefin tækniheiti fyrir margs konar tákn sem eru mikið notuð í prentuðum ritum en fást ekki á venjulegum hnappaborðum. Ætlast var til að þessi heiti væru notuð í SGML-skjölum til þess að kalla á viðeigandi tákn. Í skjalinu, sem Jörgen Pind afhenti orðanefndinni, voru handskrifaðar þýðingartillögur hans og samstarfsmanna hans við Orðabók Háskólans. Orðanefndin fór yfir þessa skrá, gerði tillögur um breytingar og lagði til ný heiti þar sem þau vantaði.Stærðfræðingarnir Reynir Axelsson og Ragnar Sigurðsson komu til liðs við nefndina við að finna heiti á stærðfræðitáknum.

Af ýmsum ástæðum lá þetta starf síðan niðri þangað til í byrjun árs 2000. Þá varð um það samkomulag að Íslensk málnefnd gæfi skrána út í ritröð sinni Smárit Íslenskrar málnefndar. Orðanefndin tók þá til við að endurskoða íslensku heitin. Stjórn Skýrslutæknifélags Íslands ákvað í byrjun árs 2002 að verja hluta af tekjum af 3. útgáfu Tölvuorðasafns til þess að kosta ritstjórn og umbrot.

Stefán Briem kom þá til liðs við nefndina og vann að undirbúningi útgáfunnar. Stefán sá um alla tölvuskráningu og umbrot sem í þessu tilviki var töluvert flókið.

Tákn voru valin í skrána með það fyrir augum að flestir lesendur fyndu þau tákn sem gætu birst í lesefni sem ekki er þeim mun sérhæfðara. Ákveðið var að hafa lista yfir helstu stafmerki sem eru notuð með latneskum stöfum í stafrófum þeirra tungumála sem líklegt er að lesendur þurfi að fást við. Einnig voru sýnd í ritinu nokkur stafbrigði, t.d. tvíhljóðar og límingar. Ekki voru sýnd einstök stafróf nema þar sem gefinn var listi yfir norrænar rúnir.

Í skránni er sérstakur kafli um tilvitnunarmerki. Reynt var að gefa tilvitnunarmerkjum heiti eftir útliti og flokka þau síðan eftir því hvernig þau eru notuð í helstu nágrannalöndum.

Á eftir orðaskránni eru í ritinu íslensk atriðisorð í stafrófsröð og einnig ensk atriðisorð í stafrófsröð. Þar eru öll heiti sem koma fyrir í skránni með tilvísun í blaðsíðutal þar sem heitið kemur fyrir. Ragnar Sigurðsson aðstoðaði við fyrstu tölvuskráningu handritsins árið 1990 og hann og Reynir Axelsson lásu allt handritið fyrir útgáfu og veittu margar góðar ábendingar. Orðanefndin naut einnig aðstoðar Þóru Elfu Björnsson hjá Prenttæknistofnun sem las yfir handritið og kom með gagnlegar ábendingar.

Ritið með táknaheitunum kom út í byrjun árs 2003 sem annað ritið í röð málefndarinnar Smárit Íslenskrar málefndar. Ritið er einnig aðgengilegt sem prenthæft pdf-skjal á vef orðanefndarinnar (http://tos.sky.is/site_media/Taknaheiti.pdf).

Fjórða útgáfa Tölvuorðasafns

Orðanefndin hélt áfram reglulegum fundum eftir að 3. útgáfa Tölvuorðasafns birtist á prenti. Fram til ársins 2002 hafði því safnast nokkurt efni. Þá var sótt um styrk frá Norrænu málráði til þess að vinna frekar úr því, bæta við það og koma efninu fyrir í orðabanka Íslenskrar málstöðvar. Norrænt málráð styrkti á þeim tíma sérstaklega orðabókarverkefni á þeim málsvæðum á Norðurlöndum sem kallast „lítil“, þ.e. þar sem töluð er íslenska, færeyska, grænlenska og samíska. Í október 2002 veitti málráðið nefndinni styrk að upphæð 125 þúsund danskar krónur. Stefán Briem sem hafði ritstýrt 3. útgáfu orðasafnsins var ráðinn til þess að vinna með nefndinni. Stefán og orðanefndin unnu að þessu verkefni allt árið 2003. Ekki varð þó af því að endurbæturnar yrðu settar í orðabankann þar sem unnið var við endurskoðun á tölvukerfi bankans árið 2004.

Orðanefndin sjálf stóð fyrir og skipulagði fjáröflun fyrir fjórðu útgáfu. Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, veitti nefndinni rausnarlegan styrk seint á árinu 2003 og sama gerði Skýrslutæknifélagið og nokkur einkafyrirtæki í byrjun árs 2004. Vorið 2004 þótti viðbótin orðin svo mikil að rétt væri að gefa verkið út sem prentaða bók auk þess að koma því fyrir í orðabankanum. Stefán Briem var ráðinn sem ritstjóri og nefndin vann áfram að því að afla styrkja frá fyrirtækjum og stofnunum til þess að greiða kostnað við ritstjórn og kom bókin út sumarið 2005.

Eins og við undirbúning á fyrri útgáfum orðasafnsins var einkum stuðst við skrá um hugtök í upplýsingatækni (ISO/IEC 2382) frá Alþjóðlegu staðlasamtökunum (ISO) og Alþjóðlega raftækniráðinu (IEC). Þegar þarna var komið sögu voru rúmlega 30 kaflar í skránni og höfðu margir kaflanna verið gefnir út sem staðall þegar efnissöfnun fyrir 3. útgáfu Tölvuorðasafns lauk árið 1997. Flest hugtök í þessari skrá voru tekin með í Tölvuorðasafnið, en auk þeirra fjölmörg hugtök úr tölvuorðabókum og öðrum ritum um tölvumálefni og upplýsingatækni. Við endurskoðun fyrir 4. útgáfu Tölvuorðasafns voru heimildir á lýðnetinu um ný hugtök í upplýsingatækni orðnar mun fjölskrúðugri en verið hafði þegar unnið var við 3. útgáfuna. Auk þess að nýta FOLDOC (Free On-Line Dictionary Of Computing, http://foldoc.org/) eins og gert var fyrir 3. útgáfu, var einkum leitað í tölvuorðasafninu Tech Target (http://whatis.techtarget.com/glossaries). Við val á hugtökum var enn fremur stuðst við ábendingar frá sérfræðingum og fyrirspurnir sem orðanefndinni bárust eins og fyrir fyrri útgáfur. Eins og áður var leitað til ýmissa sérfræðinga sem veittu góð ráð og lásu yfir einstaka kafla orðasafnsins.

Í fjórðu útgáfu orðasafnsins eru um 6500 hugtök með um 7700 íslenskum heitum og um 8500 enskum heitum.

Íslensk málnefnd treysti sér ekki til þess að gefa bókina út og sneri orðanefndin sér þá til forsvarsmanna Hins íslenska bókmenntafélags sem hafði staðið að fyrstu útgáfu Tölvuorðasafns ásamt Íslenskri málnefnd. Bókmenntafélagið tók að sér útgáfuna. Auk styrkja frá fyrirtækjum og stofnunum styrkti Menningarsjóður útgáfuna.

Vefútgáfa orðasafnsins

Árið 2006 var fjórðu útgáfu Tölvuorðasafnsins komið fyrir til leitar á vef Skýrslutæknifélagsins. Fyrirtækið Já-Spurl tók verkið að sér. Viðar Másson hannaði upphaflega vefviðmótið. Vefurinn var vistaður hjá Já ehf. frá 2006 og er svo enn þegar þetta er skrifað (í janúar 2016).

Fimmta útgáfa Tölvuorðasafns

Orðanefndin hélt áfram starfi eftir að fjórða útgáfa orðasafnsins kom út. Unnið var úr fyrirspurnum sem bárust og nokkur efnissöfnun fór fram. Sumarið 2009 lést Baldur Jónsson og var þá ákveðið að vinna úr því efni sem safnast hafði eftir að fjórða útgáfan kom út og gefa efnið út á vef orðanefndarinnar. Hugtökum fjölgaði um 3,8%. Auk þeirra hugtaka sem bættust við, var eldra efni endurskoðað. Gerðar voru minni háttar lagfæringar og breytingar á því efni sem fyrir var í safninu.

Ekki var leitað í staðlana enda virtist hafa hægst á staðlastarfinu. Efnissöfnun fyrir fimmtu útgáfu var því aðallega á veraldarvefnum eins og fyrir fjórðu útgáfu. Helst var stuðst við efni af vefsetrunum http://foldoc.org/ (Free On-Line Dictionary Of Computing), http://www.wikipedia.org/ og http://whatis.techtarget.com/ (TechTarget). Frjáls aðgangur er að öllu þessu efni. Nefndin leitaði eins og áður til sérfræðinga eins og þörf var á.

Stefán Briem tók að sér að ganga frá efninu til útgáfu á vefnum. Viðar Másson hafði nú flutt sig til fyrirtækisins Datamarket og tók hann að sér að koma nýju efni fyrir á vefnum. Orðanefndin átti nokkurn sjóð sem varð til við fjórðu útgáfu orðasafnsins. Þeir fjármunir voru notaðir til þess að greiða kostnað. Stjórn Skýrslutæknifélagins veitti fjárhagslegan stuðning þegar sjóður nefndarinnar var uppurinn.

Í tengslum við frágang fimmtu útgáfunnar á vefnum var ýmsu efni bætt við vefinn. Þar sem orðasafnið var ekki gefið út í prentaðri bók var prenthæft skjal með útliti fyrri útgáfu gert aðgengilegt á vefsetrinu. Þar eru einnig upplýsingar um allar útgáfur Tölvuorðasafnsins (formálar, inngangar og listar yfir styrkveitendur) og prenthæft skjal ritsins Íslensk táknaheiti. Efni orðasafnsins í formi til þess að nota í svokölluð þýðingaminni er einnig aðgengilegt á vefnum.

Með bréfi dagsettu 28. febrúar 2013 afhenti orðanefndin Skýrslutæknifélagi Íslands vefsetrið til varðveislu. Nefndarmenn tilkynntu um leið að þeir lykju störfum í nefndinni. Nefndarmenn óskuðu eftir því að efni útgáfunnar yrði látið standa óbreytt en þeim sem tækju við starfinu væri frjálst að nota efnið sem grunn að nýju verki.

Jafnframt lagði orðanefndin til við stjórn Skýrslutæknifélagsins að leitað yrði eftir samstarfi við Íslenska málnefnd um íðorðastarf í tölvu- og upplýsingatækni í samræmi við ályktun málnefndarinnar frá nóvember 2012 (http://arnastofnun.is/solofile/1016400 ) þar sem segir m.a.:

„Íðorðastarf í tölvu- og upplýsingatækni verði styrkt og komið á fót samvinnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Skýrslutæknifélags Íslands og Íslenskrar málnefndar á því sviði.“

Um orðið tölva

Þar sem þetta rit fjallar um tölvutækni á Íslandi í víðum skilningi er ekki úr vegi að athuga hver er uppruni orðsins tölva. Þorsteinn Sæmundsson ritaði pistil í 5. tölublað, 7. árgangs Tölvumála árið 1982 sem hann kallaði Um vikur ársins, almanök og orðið „tölva“. Þar greindi hann frá því hvernig orðið varð til. Sigrún Helgadóttir ritaði annan pistil, Um uppruna orðsins tölva, í 4. tölublað, 18. árgang Tölvumála árið 1993 og studdist þar við grein Þorsteins og nýjar upplýsingar frá Þorsteini. Baldur Jónsson ritaði árið 1994 ítarlegri grein, Um orðið tölva, í ritið Sagnaþing helgað Jónasi Kristjánssyni sjötugum 10. apríl 1994. Hér fyrir neðan er hluti af texta Sigrúnar frá 1993:

Árið 1964 kom fyrsta tölva Háskóla íslands til landsins og var það tölva af gerðinni IBM 1620. Í kringum þessa tölvu var Reiknistofnun Háskólans stofnuð og fyrsti forstöðumaður hennar var Magnús Magnússon prófessor. Magnús átti mikinn þátt í að fá þessa tölvu til landsins. En þegar hann greindi ráðamönnum frá verði tölvunnar láðist honum að gera ráð fyrir aðflutningsgjöldum. Hitti hann þá Gunnar Thoroddsen sem þá var fjármálaráðherra á förnum vegi á Arnarhóli og bar upp vandræði sín. Gunnar mun þá hafa sagt að þetta yrði ekkert vandamál. Nokkru síðar var Magnús staddur í kjallara Raunvísindastofnunar við Dunhaga, þar sem tölvan var hýst, ásamt Páli Bergþórssyni veðurfræðingi og voru þeir að ræða um nafn á þetta undratæki. Magnús sagði Páli m.a. frá fundi sínum og Gunnars. Páll mun þá hafa spurt hvort tækið mætti ekki heita vala og var þá að hugsa um frú Völu Thoroddsen, eiginkonu Gunnars. Eftir nokkra umhugsun hafði hann þó sagt "eða valva". Ekki varð meira um umræður að því sinni. Skömmu síðar var Sigurður Nordal, prófessor, staddur heima hjá Magnúsi í Skeiðarvogi. Þegar Sigurður var að fara og Magnús fylgdi honum út sagði hann honum frá samtali sínu við Pál Bergþórsson um heiti á nýja reiknitækið. Þá mun Sigurður hafa sagt "það er ekki valva heldur völva". Eftir nokkra stund bætti hann við "en hví ekki tölva?" Og var því samtali þá lokið. Magnúsi leist vel á orðið en mun samt hafa verið á báðum áttum. Hann mun sjálfur hafa notað orðið rafeindareiknir en af öðrum tilbrigðum má nefna heitin rafeindareiknivél, rafreikni og reikniheila. Öll þessi heiti komu fyrir í Tímariti Verkfræðingafélagsins 1964 þar sem ýmsir menn rituðu greinar í tilefni af því að þessi fræga vél var komin til landsins. Þótt ég sé orðin gömul í hettunni tók ég að sjálfsögðu ekki þátt í þessari umræðu en ég man óljóst eftir henni og sum þessara orða voru enn notuð eftir að ég byrjaði að starfa við tölvur á Íslandi eftir 1969. Þegar Magnús greindi Þorsteini Sæmundssyni frá orðinu tölva leist honum strax vel á það. Þorsteinn mun því hafa gripið fyrsta tækifæri sem hann fékk til þess að ræða við Sigurð um myndun orðsins og beygingu þess. Þorsteinn segir orðrétt: "Sigurður kvað orðið dregið af orðunum tala og völva og ætti að beygjast eins og hið síðarnefnda. Ég spurði Sigurð sérstaklega um eignarfall fleirtölu af orðinu, og taldi hann að það ætti að vera tölna. Ekki hafa þó íslenskumenn orðið sammála um þetta atriði, og í reynd hefur orðið verið beygt á annan hátt (tölva í ef. ft.)." Ef við reynum að setja þetta í dálítið fræðilegri búning getum við sagt að orðið tölva sé myndað með u-hljóðvarpi af orðinu tala á svipaðan hátt og orðið völva er myndað með u-hljóðvarpi af orðinu vala. Orðið beygist, eins og allir vita: tölva, tölvu, tölvu, tölvu og í ft. tölvur, tölvur, tölvum, tölva. Myndin tölva í ef. ft. hefur orðið ofan á eins og Þorsteinn benti á. Heiti á þetta nýja undratæki dregur Sigurður Nordal af orðinu tala þar sem það vinnur úr tölum en orðið völva hefur haft áhrif á hvernig orðið var myndað þar sem það var sú hugmynd sem varpað var fram.

Eftir samtal sitt við Sigurð fór Þorsteinn að reka harðan áróður fyrir orðinu tölva. Að sögn Þorsteins reyndist almenningur móttækilegri fyrir orðinu en þeir sem störfuðu við hina nýju tæki. Þorsteinn mun fyrstur manna hafa sett orðið á prent í Almanaki Háskólans þar sem hann greindi frá því að tölva hefði í fyrsta sinn verið notuð við útreikninga almanaksins fyrir 1966. Til öryggis hafði hann þó orðið rafeindareiknir í sviga. Að beiðni Þorsteins ritaði Páll Theodórsson grein í Almanak háskólans 1967 þar sem orðið tölva var notað jafnhliða orðinu rafeindareiknir. Í Almanaki Þjóðvinafélagsins 1968 birtist svo löng grein um tölvur eftir Magnús Magnússon og þar var eingöngu notað orðið tölva. Viðtökur almennings urðu jafnvel betri en Þorsteinn ætlaðist til þannig að til varð nýtt og óvænt vandamál. Hugmyndin var upphaflega sú að orðið tölva væri eingöngu notað um það sem á ensku var kallað computer, þ.e. 'stórvirka vél sem unnt væri að forrita og gæti gert umfangsmikla útreikninga án mannlegra afskipta'. En fljótlega var farið að nota orðið tölva um hvers kyns reiknivélar. Einnig var farið að nota það í samsetningum um hvers kyns tæki sem höfðu rafeindabúnað t.d. tölvuúr. Þorsteinn segir árið 1982 að tími sé kominn til þess að sporna við fótum þannig að orðið tölva verði ekki svo ofnotað að það hætti að hafa nokkra glögga merkingu. Jóhann Gunnarsson tekur undir þessi orð Þorsteins í næsta hefti Tölvumála. Ég hef einnig stundum bent á þessa ofnotkun orðsins tölva og ýmissa samsetninga af því. Á tímabili virtist mér sem tilhneiging væri til þess að þýða flest ensk og norræn heiti sem byrjuðu á data- eða digital- með íslensku heiti sem byrjaði á tölv-. Ekki er gott að segja hvers vegna þetta var svo en stundum held ég að allt sem tengt var tölvum hafi verið álitið fínt. Mér finnst að þessarar tilhneigingar gæti minna nú en fyrir 5-10 árum. 

Baldur greinir einnig ítarlegar frá hlut Páls Bergþórssonar veðurfræðings í sögunni um orðið tölva og hvernig hann hafi undirbúið jarðveginn. Páll flutti útvarpsþátt 19. desember 1964 sem nefndist „Veðrið í vikunni“ þar sem hann fjallaði að vísu um „veðrið í vikunni“ en honum mun hafa verið ofar í huga að tala um nafn fyrir það galdraverkfæri sem nýkomið var til landsins og var m.a. kallað rafeindareiknivél. Páll vék að gamalli þulu sem hann hafði svo:

Segðu mér nú, vala mín,
það sem ég spyr þig um;
ég skal með gullinu gleðja þig
og silfrinu seðja þig,
ef þú segir mér satt,
en í eldinum brenna þig
og koppinum kæfa þig
ef þú lýgur að mér.

Páll sagði enn fremur:

Það var sauðarvalan, sem svona var ávörpuð. Börnin settu völuna upp á höfuð sér, fóru með þessa þulu og spurðu síðan spurningar, sem svara mátti með jái eða neii. Svo steyptu þau völunni fram af höfðinu niður á gólf. Ef kryppan á henni kom upp, sagði hún já, ef hvilftin sneri upp, sagði hún nei, en legðist hún á hliðina, vildi hún ekki svara.

Baldur segir að Páll hafi síðan vikið að því að skyldleiki sé milli orðanna vala og völva. Páll sagði að seiðkonur af jötnaættum hafi nefnst völur eða völvur og Völuspá sé svar einnar þeirra við spurningum Óðins um fortíð og framtíð. Baldur segir síðan orðrétt:

Það er rétt að orðin vala og völva eru skyld. Auk þess voru þau líkari að formi en ráða má af nefnifallsmyndunum einum saman. Svo sem kunnugt er féll v brott á undan u-i í fornu máli, og fyrir vikið urðu þessi tvö orð eins í öllum föllum nema nf. et. og ef. ft.

Páll segir að lokinni tilvitnun í Völuspá:

Þessi tvíþætta notkun völunafnsins gefur því djúpa og víðtæka merkingu, sem á býsna vel við þá galdranorn rafeindatækninnar, sem menn leita til með erfiðastar ráðgátur nú á dögum, rafeindareiknivélina. Ég held þess vegna, að hún ætti að heita vala, kannski rafmagnsvala við hátíðleg tækifæri, þá sjaldan að nánari útskýringar væri þörf. Og vissulega eru þessar vélar verðugri að bera þetta nafn en litlu beinin úr sauðarfætinum, því áreiðanlega segja þær oftar satt. Hitt er víst, að til þess þarf með gullinu að gleðja þær og með silfrinu að seðja þær ekki síður en gömlu leikföngin barnanna.

Baldur segir að Páll hafi notað orðið vala um tölvu í því sem eftir var af erindinu og vænt þess t.d. að brátt myndi sérstök veðurvala verða til. Baldur segir enn fremur:

Hugmynd Páls er bráðskemmtileg, einkum samlíkingin við sauðarvöluna, sem svarar með jái eða neii. Tvíundarviðbrögð eru einmitt undirstöðuatriði í tölvutækni, þar sem gögn eru geymd í tvíundarformi og hver eining er táknuð með tölustöfunum 1 eða 0.

Páll hefir einnig bent á (í samtali) að sérstök særingarþula er yfir höfð, þegar vala er spurð, en til þess að hafa gagn af tölvum þarf þaulhugsuð forrit. Þau eru eins konar særingarþulur tölvutækninnar.

Það væri e.t.v. skemmtilegt að benda ungum forriturum á að þeir þurfi að búa til særingarþulu til þess að fá tölvur til þess að gera það sem til er ætlast.

Baldur segir einnig frá því að að þegar nýja háskólatölvan var tekin í notkun 1964 fékk Almanakið fyrsta verknúmerið (H0001) sem Háskólanum var úthlutað. Þorsteinn Sæmundsson annaðist útreikningana eins og áður er getið og var því meðal þeirra fyrstu sem notuðu tölvurnar.

Í grein sinni segir Baldur Jónsson frá því að orðið tölva hafi beinlínis komið til álita sem tökuorð í norrænum málunum fyrir enska orðið computer. Af því varð þó ekki og Færeyingar bjuggu sér til orðið telda sem dregur dám af íslenska orðinu. Það þótti henta betur að hafa það svo en gera orðið tölva að tökuorði.

Baldur fjallar síðan ítarlega um beygingu orðsins tölva. Þeim sem vilja fræðast um það er bent á að lesa grein Baldurs sem birtist einnig í bókinni Málsgreinar sem var afmælisrit Baldurs, gefið út af Íslenskri málnefnd 2002.

Viðurkenningar

Hinn 17. júní 1997 veitti stjórn Lýðveldissjóðs Sigrúnu Helgadóttur "sérstaka viðurkenningu fyrir lofsverð störf til eflingar íslenskri tungu."

Á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2006 veitti menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu. Sigrún Helgadóttir tók við viðurkenningunni fyrir hönd nefndarinnar.

Heimildir

Baldur Jónsson. 1985. Isländsk ordbildning på inhemsk grund. Språk í Norden 1995:5-12.
Baldur Jónsson. 1987. Íslensk orðmyndun. Andvari: 88-102.
Baldur Jónsson. 1994. Um orðið tölva. Sagnaþing helgað Jónasi Kristjánssyni sjötugum 10. apríl 1994. Fyrri hluti. Bls. 33–44. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík.
Magnús Snædal. 1987. Orðmyndun í læknisfræði. Læknablaðið 10:9-14.
Sigrún Helgadóttir. 1990. Um Tölvuorðasafn. Orð og tunga 2, bls. 31-38. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
Sigrún Helgadóttir. 1993. Um uppruna orðsins tölva. Tölvumál 18,4:28–29.
Sigrún Helgadóttir. 1998. Tölvuorðasafn. Tölvumál 23,1:20–23.
Þorsteinn Sæmundsson. 1982. Um vikur ársins, almanök og orðið „tölva“. Tölvumál 7,5:9–12.
Tölvuorðasafn. 1983. Íslenskt-enskt, enskt íslenskt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík. 1983.
Örfilmutækni. 1985. Íslensk orðaskrá með skýringum og ensk-íslensk orðaskrá. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman í samvinnu við nokkra áhugamenn. Tölvumál 10, 2.
Tölvuorðasafn. 1986. Íslenskt-enskt, enskt íslenskt, 2. útgáfa, aukin og endurbætt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Ritstjóri: Sigrún Helgadóttir. Íslensk málnefnd. Reykjavík.
Tölvuorðasafn. 1998. Íslenskt-enskt, enskt-íslenskt, 3. útgáfa aukin og endurbætt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Ritstjóri: Stefán Briem. Íslensk málnefnd. Reykjavík.
Íslensk táknaheiti. 2003. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Íslensk málnefnd. Reykjavík.
Tölvuorðasafn. 2005. Íslenskt-enskt, enskt-íslenskt, 4. útgáfa aukin og endurbætt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Ritstjóri: Stefán Briem. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík.
Tölvuorðasafn. 2013. Vefútgáfa. http://tos.sky.is/.