Tölvuorðasafn - 1. útgáfa - Formáli
Formáli að 1. útgáfu
Vorið 1982 var Íslenskri málnefnd veittur styrkur úr Rannsóknarsjóði IBM vegna Reiknistofnunar Háskólans til að undirbúa tölvuvinnslu orðasafna. Tilskilið var, að orðasafn Skýrslutæknifélags Íslands yrði látið sitja fyrir, enda hafði stjórn félagsins sótt um styrk til þess verkefnis. Á vegum málnefndarinnar hafði þá um nokkurt skeið verið unnið að gerð orðabókarkerfis með tölvuvinnslu sérhæfðra orðasafna í huga. Málnefndinni kom því vel að fá þennan styrk, og var hann þeginn með þökkum.
Þar sem málnefndin hefir átt hlut að undirbúningi þessa orðasafns, þótti við hæfi, að hún stæði einnig að útgáfu þess með nokkrum hætti. Hún hefir áður gefið út Norræn ferðamannaorð (1970) í samvinnu við aðra, en vonast er til, að með Tölvuorðasafni sé markað upphaf að tíðari útgáfu orðasafna og fleiri rita á vegum nefndarinnar.
Íslensk málnefnd fagnar þeirri samvinnu, sem tekist hefir við Hið íslenska bókmenntafélag um þessa útgáfu. Hún var reyndar komin á góðan rekspöl, þegar Bókmenntafélagið tók hana að sér. Að nokkru leyti má þakka það nýrri tækni, sem beitt hefir verið við frágang textans, en ekki síður ötulleik Sigrúnar Helgadóttir, formanns Orðanefndar Skýrslutæknifélags Íslands. Sigrún hefir einnig annast ritstjórnina í samráði við mig.
Íslensk málnefnd nýtur árlegra fjárveitinga frá Alþingi til starfsemi sinnar. Auk þess hafa ýmsir orðið til að styrkja hana með fjárframlögum vegna þessarar útgáfu sérstaklega. Fyrir bragðið verður unnt að snúa sér að því nú þegar að stækka þetta orðasafn og endurbæta fyrir aðra útgáfu. Skrá yfir styrkveitendur er birt á næstu blaðsíðu. Íslensk málnefnd færir þeim öllum bestu þakkir.
Reykjavík 29. ágúst 1983
Baldur Jónsson