Tölvuorðasafn - 3. útgáfa - Formáli
Formáli að 3. útgáfu
Tölvuorðasafn kom fyrst út 1983, og birtust þar tæplega 1000 íslensk heiti og rösklega 1000 ensk á liðlega 700 hugtökum. Í 2. útgáfu 1986 var skilgreiningum hugtaka bætt við og safnið stækkað mjög. Hugtökin voru nær 2600 að tölu, íslensk heiti þeirra um 3100 og ensk heiti nær 3400. Tölvuorðasafn birtist hér í þriðja sinn og er enn mjög aukin og endurbætt útgáfa hinnar næstu á undan. Í þessari bók eru rösklega 5000 hugtök með um 5800 íslenskum heitum og tæplega 6500 enskum.
Stjórn Skýrslutæknifélags Íslands skipaði verkefnisstjórn sem hafði umsjón með verkinu og forgöngu um að safna fé til þess að greiða kostnað við ritstjórn. Í verkefnisstjórn sátu Douglas A. Brotchie, Heimir Sigurðsson og Sigrún Helgadóttir. Árið 1993 veitti Ráðgjafanefnd um upplýsinga- og tölvumál (RUT) Skýrslutæknifélaginu styrk úr sjóði til að tryggja stöðu íslenskunnar í alþjóðlegum samskiptum á sviði upplýsingatækni og boðmiðlunar. Styrkinn skyldi nota til þess að vinna að endurskoðun Tölvuorðasafns. Málræktarsjóður og Lýðveldissjóður styrktu verkið árin 1995, 1996 og 1997. Lista yfir þessa og aðra styrkveitendur er að finna á blaðsíðu 7. Aðstandendur orðasafnsins færa öllum styrkveitendum bestu þakkir.
Frá því að Íslensk málnefnd fékk aðsetur í Aragötu 9 í Reykjavík hefur orðanefnd Skýrslutæknifélagsins haldið fundi sína þar. Íslensk málstöð tók til starfa í byrjun árs 1985 í Aragötu 9. Ritstjórn þessarar bókar hafði einnig aðsetur þar eins og ritstjórn annarrar útgáfu. Málstöðin lét í té tölvubúnað og alla aðra aðstöðu. Notað var efnisflokkunar- og skráningarkerfi málstöðvarinnar við tölvuskráningu orðasafnsins. Íslensk málnefnd er útgefandi orðasafnsins sem er 10. ritið í ritröð málnefndarinnar. Orðanefndin og Skýrslutæknifélagið færa Íslenskri málnefnd og sérstaklega Ara Páli Kristinssyni, forstöðumanni Íslenskrar málstöðvar, þakkir fyrir aðstoð og góða samvinnu.
Við gerð þessarar bókar hefur eins og áður verið lögð til grundvallar skrá frá Alþjóðlegu staðlasamtökunum og Alþjóða raftækniráðinu sem nú heitir Information Technology - Vocabulary ISO/IEC 2382. Staðlaráð Íslands, sem er aðili að þessum stofnunum fyrir Íslands hönd og hefur jafnframt einkaumboð fyrir þær á Íslandi, hefur góðfúslega leyft notkun þessa rits.
Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins hefur tekið saman efni í þessa bók eins og fyrri útgáfur orðasafnsins. Skipan orðanefndarinnar hefur verið óbreytt frá 1978. Í nefndinni eiga sæti: Baldur Jónsson prófessor, Sigrún Helgadóttir tölfræðingur, sem er formaður nefndarinnar, Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur og Örn Kaldalóns kerfisfræðingur. Nefndin hefur haldið fundi reglulega síðan undirbúningi að annarri útgáfu lauk, að jafnaði einu sinni í viku. Fundir urðu þó mun tíðari síðustu mánuði þessarar vinnulotu.
Haustið 1995 var Stefán Briem eðlisfræðingur ráðinn ritstjóri verksins. Hann hefur síðan unnið að efnisöflun, þýtt skilgreiningar, undirbúið fundi og setið fundi nefndarinnar. Stefán hefur einnig séð um tölvuskráningu og alla tölvuvinnu, m.a. umbrot bókarinnar. Nefndin og stjórn Skýrslutæknifélagsins þakka Stefáni sérstaklega vel unnin störf og ánægjulegt samstarf.
Fjölmargir sérfræðingar hafa aðstoðað nefndina og ritstjórann við undirbúning þessarar útgáfu. Daði Örn Jónsson, Kristján Arnþórsson og Sigvaldi Óskar Jónsson lögðu til orðalista og annað efni. Starfsmenn Einars J. Skúlasonar hf. lögðu til orðalista fyrir gluggaumhverfi og vinnuhópur í tölvudeild Vátryggingafélags Íslands hf. lagði til skrá um hugtök í hlutbundinni hugbúnaðargerð.
Frá síðustu útgáfu hafa þessir setið fundi með nefndinni þegar fjallað hefur verið um efni sem birtist í þessari bók: Jón R. Gunnarsson, Gísli Hjaltason, Einar Reynis, Magnús Hauksson, Dröfn Hreiðarsdóttir, Magnús Gíslason, Ebba Þóra Hvannberg og Jóhanna Margrét Guðjónsdóttir. Þau Einar Reynis, Magnús Hauksson og Ebba Þóra Hvannberg lásu einnig yfir einstaka efniskafla.
Leitað var til margra sérfræðinga sem lásu yfir efniskafla eða lögðu fram efni á annan hátt. Sérstaklega ber að þakka þessum: Bergi Jónssyni, Eyþóri Arnalds, Friðriki Skúlasyni, Hjálmtý Hafsteinssyni, Jóhanni Gunnarssyni, Jóni Atla Benediktssyni, Jóni Þóroddi Jónssyni, Jóni Þór Ólafssyni, Jörgen Pind, Kristni Andersen, Magnúsi Má Halldórssyni, Maríusi Ólafssyni, Oddi Benediktssyni, Páli Jenssyni, Páli Valdimarssyni, Sigurði Jónssyni, Snorra Agnarssyni, Stefáni Hrafnkelssyni, Sveini Kjartanssyni, Sven Þ. Sigurðssyni og Þorsteini Þorsteinssyni. Öllu þessu fólki eru færðar þakkir fyrir vel unnin störf.
Hinn 15. nóvember 1997 var opnaður á veraldarvef Lýðnetsins orðabanki Íslenskrar málstöðvar. Skýrslutæknifélagið hafði þá gert samstarfssamning við Íslenska málstöð um að 3. útgáfa Tölvuorðasafns yrði í orðabankanum. Handritið, sem lá fyrir á þeim tíma, var sett í orðabankann. Nú, þegar bókin kemur út, verður það efni endurnýjað. Orðabankinn gefur færi á að birta nýtt efni fyrr en unnt er að gera í prentaðri bók. Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins hefur fullan hug á að nýta það tækifæri sem orðabankinn veitir til þess að koma nýju efni á framfæri eins hratt og kostur er.
Reykjavík í janúar 1998
Haukur Oddsson formaður Skýrslutæknifélags Íslands |
Sigrún Helgadóttir formaður orðanefndar Skýrslutæknifélags Íslands |