Skip to main content

2023 UT-verðlaun Ský tilnefningar

UT-verðlaun Ský verða veitt á þrettándu UTmessunni föstudaginn 3. febrúar 2023.

Eftirfarandi voru valin úr tilnefningum til undirverðlaunaflokka UT-verðlaunanna og verður vinningshafi í hverjum flokki tilkynntur á verðlaunahátíð í Hörpu í lok UTmessunnar föstudaginn 3. febrúar á ráðstefnu- og sýningardegi tæknifólks og má sjá dagskrá á www.utmessan.is

Sem fyrr er ekki gefið upp hver eru tilnefnd til aðalverðlaunanna, Upplýsingatækniverðlauna Ský; heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Þar var hægt að tilnefna einstakling, fyrirtæki eða verkefni sem hefur skarað frammúr á sviði upplýsingatækni, skapað verðmæti og auðgað líf Íslendinga með hagnýtingu á upplýsingatækni. Áhersla er lögð á að framlagið hafi þegar sannað sig með afgerandi hætti. Það verður því spennandi að sjá hver hlýtur þau verðlaun.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson mun afhenda verðlaunin í Eldborgarsal Hörpu.

Eftirtalin 3 í hverjum flokki eru tilnefnd í undirverðlaunaflokkum vegna afreka á árinu 2022 og verður spennandi að sjá hver hlýtur verðlaunin í hverjum flokki.

UT-Fyrirtækið 2022:

UT-fyrirtæki ársins er flokkur fyrir fyrirtæki sem hafa unnið sérstaklega gott starf á árinu og hafa náð góðum árangri með einum eða öðrum hætti, á innlendum sem erlendum vettvangi með upplýsingatækni að leiðarljósi.

AWAREGO
AwareGO sérhæfir sig í mannlega þættinum þegar kemur að netöryggi. Fyrirtækið framleiðir myndbönd og býður upp á kennsluhugbúnað sem nýtist fyrirtækjum og stofnunum við að auka vitund starfsfólks um netöryggi. Myndböndin fjalla á stuttan og hnyttinn hátt um algengustu netöryggishætturnar og eru framleidd með það í huga að fanga athygli starfsfólks og efla það til aukinnar árvekni bæði innan og utan vinnustaðarins. Síðastliðið ár hefur AwareGO unnið að hönnun og prófunum á netöryggisáhættumati fyrir starfsfólk og kom það á markaðinn nú nýverið. Áhættumatið auðveldar þeim sem sjá um netöryggismál að átta sig á öryggisstöðu vinnustaðarins og hvar úrbóta er þörf.

GANGVERK
Mjög áhugaverður vinnustaður fyrir fólk sem vinnur við tækni. Fyrirtækið hefur vaxið mjög hratt og dafnað síðustu ár. Þar fer fram öflug vöru- og hugbúnaðarþróun. Viðskiptavinir eru fyrirtæki sem starfa á alþjóðamarkaði svo verkefnin eru mjög fjölbreytt og krefjandi. Gangverk hefur ávallt lagt áherslu á að starfa mjög náið með viðskiptavinum sínum til að einfalda ferla sem, auk flats innra skipulags, hefur skilað mjög góðum árangri. Stefnt er á áframhaldandi vöxt hjá félaginu.

KOLIBRI
Kolibri hefur það að leiðarljósi að vera til fyrirmyndar í tæknigeiranum og stuðla að framúrskarandi menningu og auknum fjölbreytileika. Kolibri hefur gengið á undan með fordæmi á þessu sviði, m.a. með opnu launakerfi, markvissri valddreifingu, áherslu á sálfræðilegt öryggi, frjálsræði og 35 stunda vinnuviku. Árið 2022 náði Kolibri því markmiði að jafna hlutfallið að fullu milli kvenna og karla sem starfa hjá félaginu. Í byrjun nýs árs 2023 urðu síðan konur í meirihluta starfsfólks félagsins í fyrsta sinn í 15 ára sögu þess. Auk þess er framkvæmdastjórn og stjórn Kolibri skipuð jafnmörgum konum og körlum.

UT-Sprotinn 2022:

UT- sprotinn er flokkur fyrir fyrirtæki sem hafa verið starfandi síðastliðin 1-6 ár og eru að bjóða lausnir sem hafa vakið athygli.

INDÓ SPARISJÓÐUR
indó er nýr staður fyrir peningana þína. Við erum ekki einn af gömlu bönkunum heldur sparisjóður. Við gerum okkur ekki breið eða fyrirferðarmikil. Við erum lítil, græn og elskum að hafa hlutina einfalda. Þannig er þjónustan okkar og hún er laus við bull. Viðskiptavinir hafa áhrif á það sem við gerum og hvernig við leggjum til samfélagsins. Síðustu mánuði höfum við þróað indó með hjálp viðskiptavina okkar í beta hópi en hlökkum til að opna dyrnar fyrir öllum þann 30. janúar næstkomandi. indó fékk starfsleyfi sem sparisjóður í febrúar 2022. Fyrsta millifærslan fór í gegnum kerfin í maí og í ágúst buðum við inn fyrstu viðskiptavinum inn í beta hóp.

SMITTEN
Smitten er vinsælasta stefnumótaappið á Íslandi og hefur vaxið mjög hratt undanfarið ár. Yfir 100.000 manns nota appið í hverjum mánuði og síðastliðið haust tryggði fyrirtækið sér tæpan einn og hálfan milljarð í fjármögnun. 

SNERPA POWER
Snerpa Power er sproti sem býður nýja og einstaka lausn fyrir stórnotendur (iðnað) á raforkumarkaði sem leiðir til verulega bættrar nýtingar auðlinda og aukinnar samkeppnishæfni raforkumarkaðar. Lausnin  flýtir orkuskiptum í átt að kolefnishlutleysi og sparar Íslandi sem samsvarar uppsettu afli allt að einnar meðalstórrar virkjunar. Framtíðarsýn SNERPA Power er raforkukerfi þar sem notendur rafmagns jafnt sem framleiðendur taka virkan þátt í að stuðla að hagkvæmri og snjallri nýtingu auðlinda og samkeppnishæfu raforkuverði. Félagið hefur á skömmum tíma aflað þriggja pilot partnera og farið í gegnum prófanir og mikilvægar vörður í vöruþróun í samstarfi við Landsnet og ISAL í Straumsvík.

UT-Stafræna þjónustan 2022:

UT- Stafræn þjónusta flokkurinn er ætlað lausnum sem skara fram úr og einfalda daglegt líf fólks. Vefsíður, öpp og rafrænar þjónustur hvers konar falla undir þennan flokk.

CERT-ÍS
Netöryggissveitin CERT-IS hefur tekið stór skref í að stuðla að bættu netöryggi og viðbragðsgetu innan íslenskrar netlögsögu og mun halda því starfi áfram á næstu árum. Hefur sveitin virkjað að fullu sviðshópa mikilvægra innviða sem hafa það markmið að auka samhæfingu viðbragða og forvarna gegn netvá meðal rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu á Íslandi auk þess að stuðla að styttri viðbragðstíma vegna atvika.  CERT-IS hefur auk þess aukið upplýsingaflæði um áhættur og atvik til þjónustuhópa og íslensk almennings meðal annar gegnum nýja heimasíðu sveitarinnar og samfélagsmiðilinn Twitter. CERT-IS viðheldur einnig  ástandsvitund netöryggismála og miðlar þeim upplýsingum áfram með fræðslu og endurgjöf til þeirra er málið varðar, bæði með útgáfu ársskýrslu auk annara sértækrar upplýsingagjafar til nánustu þjónustuhópa.

UMFERDIN.IS
Nýr vefur Vegagerðarinnar - Umferdin.is var opnaður í október. Vefurinn leysir af hólmi gamla lausn sem áður var í boði á vegagerdin.is en nú hefur verið opnaður nýr gagnvirkur vefur - Umferdin.is -  sem  á að auka aðgengi vegfarenda að upplýsingum um færð á vegum. Vefurinn hefur nýja virkni, ný kort sem byggja á Mapbox kortalausn, hann er sérstaklega hugsaður fyrir snjalltæki, er þysjanlegur og þægilegur í notkun. Vefurinn sýnir veðurupplýsingar, færðarupplýsingar, umferðartákn í rauntíma, hvernig vetrarþjónusta er á hverjum stað, vegaframkvæmdir, umferðartölur og þar fram eftir götunum.

LANDSPÍTALAAPP FYRIR SJÚKLINGA
Undanfarin misseri hefur Landspítalinn þróað smáforrit fyrir sjúklinga, svokallað Landspítalaapp. Markmið er að gefa sjúklingi betri innsýn inn í meðferðina, bæta upplifun hans og gera honum kleift að taka virkari þátt í meðferðinni. Hann getur skoðað tímabókanir, stöðu rannsóknarniðurstaðna, blóðrannsóknarniðurstöður og gildi þeirra, lyfjaupplýsingar, lífsmörk og leyft aðstandendum að fylgjast með upplýsingum um skurðaðgerðir í rauntíma. Haustið 2022 var innleidd innskráningarþjónusta og umboðskerfi Stafræns Íslands inní appið sem gerir sjúklingum kleift að veita öðrum umboð til að nota appið og gerir foreldrum og forráðamönnum kleift að fá aðgang að appinu fyrir börnin sín. U.þ.b. 600 sjúklingar nota appið daglega.

UT-Fjölbreytileika fyrirmynd 2022

Flokkurinn er til að vekja athygli á því sem vel er gert og styður fjölbreytileika og gott fordæmi.

ADA KONUR Á INSTAGRAM
Ada konur er vettvangur á Instagram sem hvetur ungar konur til þess að sækja nám í tölvunarfræði. Þar má finna viðtöl og frásagnir kvenna í tækni sem sýna fjölmarga möguleika greinarinnar og veita þannig innblástur fyrir komandi kynslóð. Þess á milli koma inn færslur um ýmislegt tengt tækni til að vekja áhuga fylgjenda. Vettvangurinn stefnir að því að bjóða upp á fyrirlestra fyrir ungar stelpur á næstu misserum, í menntaskólum og á öðrum viðburðum. Ada konur eru einn þáttur í því að ýta undir þátttöku ungra kvenna í tæknigeiranum.

GUÐRÚN VALDÍS JÓNSDÓTTIR
Guðrún Valdís útskrifaðist með Bachelor gráðu í tölvunarfræði frá Princeton háskóla árið 2018. Eftir útskrift var hún ráðin í öryggisprófanir hjá netöryggisdeild Aon á Manhattan, New York. Eftir dvöl hennar í Bandaríkjunum flutti hún aftur til Íslands þar sem hún hóf störf við öryggisprófanir hjá Syndis í september 2020. Syndis er eitt af fremstu netöryggisfyrirtækjum á Norðurlöndunum, og hlaut m.a. Upplýsingatækniverðlaun Ský í fyrra. Guðrún Valdís er nú orðin upplýsingaöryggisstjóri Syndis, sem gerir hana að einum af fremstu sérfræðingum á sviði netöryggis á landinu. Hún hefur einnig nýtt tíma sinn í að búa til og halda fyrirlestra um netöryggi og jákvæða öryggismenningu, ásamt kennslu á námskeiði um netöryggi í Háskólanum í Reykjavík. Ofan á þetta situr hún í stjórn öryggishóps Ský, auk þess að sitja í stjórn bæði Vertonet (hagsmunasamtaka kvenna í upplýsingatækni á Íslandi) og UAK (Ungra athafnakvenna). Í frítíma sínum hefur hún einnig kynnt ungar stúlkur fyrir forritunarheiminum og kennt þeim að forrita. Nýlega hlaut Guðrún verðlaunin „Rísandi stjarna ársins” á Nordic Women in Tech Awards verðlaunahátíðinni sem haldin var í Gautaborg í nóvember síðastliðnum. Það er óhætt að segja að Guðrún sé leiðandi sérfræðingur í öryggis- og tæknigeiranum á Íslandi og sé að sanna sig sem frábær fyrirmynd fyrir yngri kynslóðina.

INGA BJÖRK MARGRÉTAR BJÖRNSDÓTTIR
Inga Björk hefur verið leiðandi í umræðu um stafræn aðgengismál og þær stafrænu hindranir sem fylgt geta þeirri öru þróun sem hefur verið í tækniheiminum síðustu ár. Hún hefur verið óþreytandi talsmaður þess að enginn sé skilinn eftir m.a. við innleiðingu lausna eins og rafrænna skilríkja, og hefur staðið að margvíslegri fræðslu í þeim efnum á háskólastigi, til almennings og fagaðila. Hún er í doktorsnámi við Háskóla Íslands þar sem hún hyggst rannsaka aðgengi jaðarhópa að stafrænum heimi með áherslu á fatlað fólk. Inga Björk er frábær fyrirmynd og hefur unnið ötullega að skilið fyrir þá mikilvægu vitundarvakningu um stafrænar hindranir, aðgengismál og ötult fræðslustarf, m.a. vegna innleiðingar á rafrænum skilríkjum.

-----

Hægt er að skrá sig á ráðstefnu UTmessunnar á www.utmessan.is

Yfirlit yfir fyrri verðlaunahafa er að finna hér: UT-verðlaunin