Þorsteinn Sæmundsson
Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur
Fæddur 15. mars 1935
Dáinn 26. nóvember 2023
Þorsteinn var gerður að heiðursfélaga á aðalfundi félagsins 27. janúar 2005.
Þorsteinn lauk B.Sc. Honours prófi í stjörnufræði frá Háskólanum í St. Andrews í Skotlandi 1958 með stærðfræði, eðlisfræði og jarðfræði sem aukagreinar og doktorsprófi (Ph.D.) í stjörnufræði frá Lundúnaháskóla 1962 þar sem sérsvið hans var áhrif sólar á jörð.
Þorsteinn hóf störf við Eðlisfræðistofnun Háskólans 1963 og hefur verið sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans frá stofnun hennar 1966. Þorsteinn átti sæti í fyrstu stjórn stofnunarinnar, var forstöðumaður jarðeðlisfræðistofu frá 1966 til 1967 og frá 1987 til 1991. Þorsteinn var deildarstjóri háloftadeildar frá 1967 og hefur séð um uppbyggingu og rekstur segulmælingastöðvar Háskólans frá 1963 (fyrstu þrjú árin með Þorbirni Sigurgeirssyni). Hann aðstoðaði við uppsetningu norðurljósamyndavélar á Rjúpnahæð 1957, sá um uppsetningu annarrar myndavélar við Egilsstaði 1965 og annaðist rekstur beggja stöðva um árabil. Hann hefur haft umsjón með rekstri norðurljósarannsóknastöðva sem Pólrannsóknastofnun Japans kom upp hérlendis í samvinnu við Raunvísindastofnun 1983. Þá hefur Þorsteinn annast útreikning og útgáfu Almanaks Háskólans frá 1963 (fyrstu sjö árin með Trausta Einarssyni) og útreikninga fyrir Sjómannaalmanakið frá 1997. Einnig er vert að geta þess að Þorsteinn sér um vefsetur Almanaks Háskóla Íslands þar sem finna má margvíslegan fróðleik um tímatal og fleira.
Þorsteinn hefur sinnt margvíslegum trúnaðarstörfum sem of langt mál yrði að telja upp hér. Eingöngu verður hér minnst á störf hans að málrækt. Óhætt er að segja að Þorsteinn hafi snemma vakið athygli fyrir kunnáttusamlega meðferð á íslensku máli og þroskaðan málsmekk. Hann tók ungur við ritstjórn Almanaks Háskólans og var einnig ritstjóri Almanaks Hins íslenska þjóðvinafélags frá 1976 til 1978. Í slíku riti, sem almenningi er ætlað, er mikils um vert að setja efnið fram við alþýðu hæfi þótt sérhæft kunni að vera, en sú list er ekki öllum gefin.
Fyrsta íðorðasafnið sem Þorsteinn tók þátt í að semja var Ensk-íslenzk orðaskrá úr eðlisfræði sem var gefin út sem fjölrit 1968 af Raunvísindastofnun Háskólans. Samstarfsmenn Þorsteins við það verkefni voru Páll Theodórsson og Þorvaldur Búason. Árið 1978 gekk Þorsteinn til liðs við orðanefnd Skýrslutæknifélagsins og hefur hann starfað óslitið með nefndinni síðan. Nefndin hefur eins og kunnugt er sent frá sér þrjár útgáfur Tölvuorðasafns, 1983, 1986 og 1998. En Þorsteinn lét ekki þar við sitja heldur hefur verið formaður orðanefndar Stjarnvísindafélags Íslands frá því að hún var stofnuð 1990. Sú nefnd tók saman Ensk-íslenska og íslensk-enska Orðaskrá úr stjörnufræði með nokkrum skýringum sem kom út 1996.
Aðlögun tökuorða er viðfangsefni sem Íslendingar gáfu lengi vel fremur lítinn gaum, en á þeim vettvangi hefir Þorsteinn einnig lagt ýmislegt athyglisvert til málanna og meira en flestir aðrir. Það kemur víða fram í Almanaki hans. Einkum má minna á heiti mælieininga og landa- og ríkjaheiti, og loks má nefna skrá Þorsteins yfir heiti frumefna sem hann gaf út í Almanaki Þjóðvinafélagsins 1969 undir fyrirsögninni “Nöfn frumefnanna” (bls. 130-146), en við þá skrá hafa margir stuðst.
Það eru þó fyrst og fremst störf Þorsteins á vettvangi orðanefndar Skýrslutæknifélagsins sem stjórn félagsins vill þakka og heiðra Þorstein fyrir. Engin bein heimild er til um nýyrði eða nýyrðasmíð Þorsteins, en orðanefndarmenn eru sammála um að hann sé tillögugóður, hugkvæmur, frjór og smekkvís orðasmiður og vel að sér í íslensku máli. Hann á því drjúgan hlut í nýyrðum orðanefndarinnar. Áður en Þorsteinn gekk til liðs við orðanefndina átti hann líka stóran þátt í því koma orðinu tölva á framfæri. Sigurður Nordal bjó orðið til árið 1965. Magnús Magnússon mun hafa greint Þorsteini frá þessu nýja orði og Þorsteinn notað fyrsta tækifæri sem gafst til þess að ræða orðið og beygingu þess við Sigurð. Þorsteinn tók síðan að reka harðan áróður fyrir orðinu en almenningur mun hafa verið móttækilegri fyrir orðinu en sérfræðingarnir. Þorsteinn mun hafa sett orðið tölva fyrstur manna á prent í Almanaki Háskólans þar sem hann greinir frá því að tölva hafi í fyrsta sinn verið notuð við útreikninga almanaksins fyrir 1966. Til öryggis hafði hann þó orðiðrafeindaheili innan sviga. Að beiðni Þorsteins ritaði Páll Theodórsson grein í Almanak Þjóðvinafélagsins 1967 þar sem orðið tölva var notað jafnhliða orðinu rafeindaheili og í Almanaki Þjóðvinafélagsins 1968 birtist svo löng grein um tölvur eftir Magnús Magnússon og þar var eingöngu notað orðið tölva.
Það var því viðeigandi að Þorsteinn gerðist liðsmaður orðanefndar Skýrslutæknifélagsins þar sem fjallað er um orðaforða tækni sem kennd er við tölvuna. En eins og menn sjá af þessari upptalningu hefur Þorsteinn einnig verið í fararbroddi þeirra sem notuðu tölvur til vísindalegra útreikninga. Hann var einn af helstu notendum IBM-tölvu Raunvísindastofnunar Háskólans frá upphafi.
Þorsteinn lést þann 26.11.2023 og er hér að finna minningarorð félagsins um hann.