Andlát Óttar Kjartansson
Óttar Kjartansson
f. 7. ágúst 1930
d. 17. apríl 2010
Fyrsta íslenska fyrirtækið á því sviði atvinnulífsins sem nú nefnist upplýsingatækni var stofnað árið 1952. Heiti þess var upphaflega Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar, en síðar varð skammstöfunin Skýrr að heiti þess og vörumerki. Stofnendur voru Hagstofa Íslands f.h. Ríkisstjórnarinnar og Rafmagnsveita Reykjavíkur f.h. Reykjavíkurbæjar. Skýrsluvélar tóku við rekstri gagnavinnsluvéla sem Hagstofan hafði nýlega aflað sér ásamt samningi er Rafmagnsveitan hafði gert við IBM um leigu á vélasamstæðu. Fyrstu starfsmenn Skýrr komu frá Rafmagnsveitunni og Hagstofunni. Óttar Kjartansson kom til Skýrsluvéla frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur þar sem hann hafi unnið frá 1948. Ekki var langt að fara því hið nýja fyrirtæki fékk inni í einu herbergi hjá Rafmagnsveitunni í Tjarnargötu 12. Óttar starfaði hjá Skýrr í fimmtíu ár. Fjórum síðustu starfsárunum varði hann í að taka saman sögu fyrirtækisins. Kom hún út á bók árið 2002: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld. Saga Skýrr 1952-2002, 350 blaðsíðna verk, ómetanleg heimild um upphaf vélrænnar gagnavinnslu á Íslandi.
Óttar Kjartansson lést 17. apríl árið 2010 á líknardeild Landspítala háskólasjúkrahúss, rétt tæplega áttræður að aldri, fæddur 7. ágúst 1930. Hann ólst upp í Reykjavík, átti í æsku heima í Lækjargötunni, en dvaldi hjá ættingjum úti á landi á sumrin. Hann kvæntist árið 1965 Jóhönnu Stefánsdóttur hjúkrunarfræðingi. Börn þeirra eru Oddný Kristín fædd 1968 og Kjartan Sævar fæddur 1974. Fyrsta barn þeirra, Stefán, fæddur 1967, dó aðeins fjögurra daga gamall.
Óttar átti farsæla vegferð. Hann lauk ekki langskólanámi en eðlisgreind hans var slík að hann gat tileinkað sér vandasöm verkefni og leyst þau með prýði á sviði sem ætla mætti að farsælla væri að byggja á langskólanámi. Hann var meðal fyrstu sérmenntuðu kerfisfræðinga hér á landi, lærði þau fræði hjá IBM í Danmörku, og átti þátt í skipulagningu og forritun fjölda verkefna í áranna rás. Hæfni hans á þessu sviði var óvefengjanleg og störf hans farsæl. Hann fór sjaldan mikinn og barst ekki á á tímum sviptinga og breytinga heldur vann störf sín af alúð og kostgæfni. Hann var enda hvers manns hugljúfi og vinsæll jafnt í starfi sem einkalífi. Tryggð við sama vinnuveitanda lýsir mannkostum hans á tímum er margir töldu það sér til gildis að hafa starfað sem víðast.
Óttar var félagslyndur maður og vinafastur. Til hans var jafnan gott að leita. Hann var hjálpsamur og áhugasamur um annarra hag. Leitun var að prúðari manni í framkomu og háttvísi hans var við brugðið. Jafnvel tölvupóstar frá honum bera þessum eiginleika hans vitni. Eigi að síður gat hann verið skoðanafastur en þó með hinni mestu hófsemd.
Óttar var gerður að heiðursfélaga Skýrslutæknifélags Íslands á aðalfundi 29. janúar 2004. Hann var fyrsti starfsmaður félagsins og aðstoðarmaður fyrsta formannsins, Hjörleifs Hjörleifssonar, frá 1968-1975. Þegar hafin var útgáfa tímaritsins Tölvumála árið 1976 varð hann formaður ritnefndar, ritstjóri og ábyrðarmaður. Gegndi hann því ábyrgðarstarfi allt til 1982. Þá var hann ritari Skýrslutæknifélagsins frá 1975 til 1981.
Þegar nokkrir frumherjar undir forystu Odds Benediktssonar tóku sér fyrir hendur árið 2003 að setja saman erindi til flutnings á ráðstefnu um sögu upplýsingatækninnar á Norðurlöndum var Óttar að sjálfsögðu til kallaður og átti drjúgan hlut í því sem Oddur fór með til Þrándheims. Upp úr þessu starfi var stofnuð árið 2004 Öldungadeild Skýrslutæknifélagsins, sem er faghópur um sögu upplýsingatækninnar á Íslandi. Óttar var meðal stofnenda Öldungadeildarinnar og sat í stjórn hennar fyrstu fjögur árin. Hann samdi einnig erindi til flutnings á næstu ráðstefnu um sama efni er haldin var í Finnlandi árið 2007. Óttar átti ekki heimangengt, en Jóhann Gunnarsson flutti erindið í hans nafni. Er það birt í útgefnu erindasafni frá ráðstefnunni.
Óttar átti ýmis áhugamál sem hann sinnti af sömu kostgæfni og ævistarfinu. Hann var góður ljósmyndari, ferðaðist víða og þekkti landið afar vel. Þá áttu þau hjón nokkra hesta og voru virkir félagar í hestamannafélaginu Gusti í Kópavogi. Óttar sá í mörg ár um útgáfu fréttabréfs fyrir það félag og var meðal ritstjóra afmælisbókar Gusts er út var gefin árið 2000.
Það verður tæplega á nokkurn mann hallað, þótt Óttari sé skipað í hóp frumkvöðla tölvutækninnar á Íslandi. Þekking hans og reynsla á því sviði var margvísleg og óvenjuleg. Hans verður þó ekki síður minnst fyrir prúðmennsku sína og hæversku. Hann var drengur góður og stilltur vel. Geta væntanlega allir tekið undir það, sem til hans þekktu.
Megi minning hans lifa.
Jóhann Gunnarsson
Sverrir Ólafsson