Sigurður Bergsveinsson
Sigurður Bergsveinsson
Fæddur 22. júní 1949
Sigurður var gerður að heiðursfélaga á aðalfundi Ský þann 28. febrúar 2018 fyrir framlag hans til upplýsingatækni á Íslandi.
Sigurður lauk farmannsprófi 3. stigs frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1974 og prófi í útgerðartækni (rekstrarfræði) við TÍ 1978 og námi í markaðs- og útflutningsfræði við EHÍ 1999.
Sigurður Bergsveinsson hóf sjómennsku 16 ára vorið 1966 og starfaði við hana um árabil. Var stýrimaður á fiskiskipum við ýmsar veiðar. Hann var og stýrimaður á farskipum.
Sigurður var ráðinn sem kerfisfræðinemi til IBM á Íslandi í júlí 1978 og starfaði hjá IBM til ársloka 1989 fyrst sem kerfisfræðingur og deildarstjóri hugbúnaðardeildar og síðar sem markaðsfulltrúi og viðskiptastjóri. Á starfstíma sínum hjá IBM á Íslandi kom Sigurður að verkefnum fyrir fjöldann allan af fyrirtækjum stórum og smáum í flestum atvinnugreinum landsins. Á árunum 1990-1995 starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá Tölvutækni ehf., hugbúnaðarfyrirtæki, sem sérhæfði sig í verkefnum á sviði upplýsingakerfa fyrir sjávarútvegsfyrirtæki. Árin 1996-1997 var hann framkvæmdastjóri hjá Tölvur og tækni ehf og sinnti ýmsum verkefnum tengdum ráðgjöf og stjórnun m.a. fyrir Nýherja hf, Tæknival hf o.fl. Árið 1998 hóf Sigurður störf hjá Tölvumyndum hf og starfaði sem markaðsstjóri og framkvæmdastjóri hjá dótturfyrirtækjum félagsins, Forritun ehf, Forritun AKS hf og Vigor ehf. Þessi fyrirtæki sérhæfðu sig í viðskiptalausnum og lausnum fyrir orkuveitufyrirtæki. Tölvumyndir hf sameinuðust Nýherja hf árið 2008 og starfaði Sigurður sem framkvæmdstjóri Vigor ehf til ársins 2011. Árin 2011-2013 starfaði Sigurður sem viðskiptastjóri hjá Nýherja hf. Frá 2013 hefur Sigurður rekið sitt eigið fyrirtæki Tölvur og tækni ehf. og sinnt kennslu og ráðgjöf m.a. fyrir NTV og Fakta ehf.
Sigurður hefur safnaði miklu af eldri IBM tölvubúnaði og setti upp sýningu á þeim búnaði á vegum Ský á 40 ára afmæli félagsins árið 2008. Hann hefur einnig starfað með Öldungadeild Ský og gekkst fyrir skráningu á eldri búnaði ásamt öðrum félögum í deildinni árið 2012. Safnið er nú í vörslu Origo hf. Sigurður hefur tekið saman ýmsan fróðleik um tölvu- og hugbúnaðarmál m.a. „IBM á Íslandi og íslenskur sjávarútvegur“ í bókinni, Í vist hjá IBM, sem gefin var út árið 2008., „Saga Viðskiptahugbúnaðar“ fyrir jólaráðstefnu Ský árið 2010. Hann hefur einnig setið í ritnefnd um Sögu tölvuvæðingar á Íslandi og var formaður hennar fyrsta árið. Sigurður var skoðunarmaður reikninga Skýrslutæknifélags Íslands 2009-2018.
Sigurður hefur starfað með „Félagi áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar“ sem vinnur að verndun breiðfirska (íslenska) súðbyrðingsins. Félagið rekur í sýningu á Reykhólum í samvinnu við Reykhólahrepp o.fl.. Sigurður sá um að skrá Munaskrá félagsins árið 2017 með styrk frá Minjastofnun Íslands. Unnið er að því að fá handverkið við smíði súðbyrðings skráð á heimsminjaskrá Unesco. Sigurður hefur einnig sinnt ættfræði um fjölda ára og gefið út nokkur niðjatöl. Hann vinnur nú að ritun sögu Skipavíkur hf í Stykkishólmi sem fjallar um skipasmíðar þar frá 1907-2017.