Guðbjörg Sigurðardóttir
Guðbjörg Sigurðardóttir
Fædd 29. apríl 1956
Guðbjörg var gerð að heiðursfélaga á aðalfundi félagsins 5. febrúar 2008.
Hún lauk B.Ed prófi frá Kennaraháskóla Íslands vorið 1980 og B.Sc. prófi í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands vorið 1983. Guðbjörg hóf starfsferil sinn í upplýsingatækninni í tölvudeild Ríkisspítala og vann þar sem tölvunarfræðingur 1983-1985. Hún tók svo við starfi deildarstjóra kerfisfræðideildar Ríkisspítala 1985 og gegndi því starfi allt til ársins 1997. Árið 1997 hóf Guðbjörg störf í forsætisráðuneytinu og hefur starfað þar síðan að frátöldu árinu 2002-2003 þegar hún gegndi starfi aðstoðarmanns menntamálaráðherra.
Meginviðfangsefnin í starfi Guðbjargar fyrir forsætisráðuneyti hafa verið stefnumótunarvinna, umsjón með framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið, ýmis konar samstarf og samráð vegna upplýsingatæknimála stjórnsýslunnar og kynningarmál, t.d. UT-dagurinn. Guðbjörg hefur gegnt formennsku í Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið, formennsku í ýmsum samráðsnefndum og vinnuhópum innan stjórnsýslunnar og stýrt samráði við hagsmunaaðila utan stjórnsýslunnar. Hún hefur tekið virkan þátt í nefndarstörfum á vegum ESB og á norrænum vettvangi og var m.a. formaður upplýsingatækninefndar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar árið 1999 og árið 2004.
Guðbjörg hefur komið að starfi Skýrslutæknifélagsins með margvíslegum hætti. Hún var meðstjórnandi í stjórn Skýrslutæknifélagsins 1989-1992 og gjaldkeri í stjórn þess 1992-1993. Hún var á tímabili fulltrúi félagsins í nefndum um persónuverndarmál, varamaður í tölvunefnd dómsmálaráðuneytisins 1994-1999 og nefndarmaður í tölvunefnd 1999-2000. Hún tók svo sæti í stjórn Persónuverndar við stofnun hennar 2001-2002. Henni hefur verið falið að stýra fjölmörgum ráðstefnum á vegum félagsins, haldið erindi og skrifað greinar í Tölvumál. Gott samstarf hefur verið milli Skýrslutæknifélagsins og forsætisráðuneytis um ýmsa viðburði sem tengjast upplýsingatæknimálum stjórnsýslunnar.
Guðbjörg var einn af stofnendum Félags tölvunarfræðinga og formaður stjórnar þess 1985-1986. Hún hlaut viðurkenningu frá félaginu á 20 ára afmæli þess 2004 fyrir þátt sinn í mótun og þróun tölvunarfræðinnar á Íslandi.
Mikilvægur þáttur í aðkomu Guðbjargar að upplýsingatæknimálum er vinna í nefndum og stjórnum sem fjalla um þau mál. Guðbjörg sat t.d. í RUT-nefndinni (Ráðgjafanefnd fjármálaráðuneytis um upplýsinga- og tölvumál) 1995-1998, þar af var hún formaður 1996-1998. Hún sat í úthlutunarnefnd Tæknisjóðs 1998-2000 og hefur setið í stjórn Fjarskiptasjóðs frá stofnun hans 2006.
Stefnumótun og innleiðing stefnu opinberra aðila í málefnum upplýsingasamfélagsins hefur verið afgerandi þáttur í starfsferli Guðbjargar. Hún var formaður nefndar á vegum menntamálaráðuneytis sem mótaði stefnu um menntun og upplýsingatækni. (Sjá ritið: Í krafti upplýsinga, mars 1996), formaður verkefnisstjórnar um mótun stefnu um upplýsingasamfélagið fyrir ríkisstjórn Íslands, 1995-1996 (Sjá ritið: Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið), formaður stýrihóps í mótun upplýsingatæknistefnu fyrir heilbrigðiskerfið 1996-1997 (Sjá ritið: Stefnumótun í upplýsingmálum innan heilbrigðiskerfisins). Hún sat í stýrihópi um gerð fjarskiptaáætlunar 2004-2005, var formaður stefnumótunarnefndar sem mótaði stefnu fyrir ríkisstjórn Íslands um íslenska upplýsingasamfélagið, 2003-2004 (Sjá ritið: Auðlindir í allra þágu). Guðbjörg stýrir nú nefnd um mótun nýrrar stefnu ríkisstjórnarinnar um málefni upplýsingasamfélagsins fyrir árin 2008-2011.